Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leggja til aðgerðaáætlun gegn ofbeldi

23.10.2018 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórir ráðherrar ákváðu á ríkisstjórnarfundi í morgun að leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess, til næstu fjögurra ára. Áætlunin er í samræmi við stjórnarsáttmálann um að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu þar sem áhersla er lögð á að útrýma kynbundnu ofbeldi, þar með töldu stafrænu kynferðisofbeldi.

Ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála og menntamála leggja tillöguna fram. Áætlunin tekur til ofbeldis í ólíkum birtingarmyndum: líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis. Hún byggist á þremur meginþáttum, það er vakningu sem feli í sér forvarnir og fræðslu, viðbrögðum sem snúist um verklag og málsmeðferð og valdeflingu þar sem áhersla er lögð á styrkingu þolenda í kjölfar ofbeldis.

Það var stýrihópur með fulltrúum þessara ráðuneyta sem vann áætlunina í þverfaglegu samstarfi á síðustu misserum. Fundað hefur verið með sérfræðingum í hverjum landshluta. Margar af þeim aðgerðum sem lagðar eru til lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Ráðherrarnir fjórir sem leggja tillöguna fram segja í tilkynningu að samfélagslegt tjón af völdum ofbeldis sé verulegt og megi meðal annars mæla í auknu álagi á félags- og heilbrigðisþjónustu. Þá dragi ofbeldi úr framleiðni á vinnustöðum, leiði til aukinnar starfsmannaveltu og lægri þjóðarframleiðslu. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV