Leggja til að Netanyahu verði ákærður

13.02.2018 - 20:26
Erlent · Asía · Ísrael · Netanyahu
epa03792505 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (R) and his wife Sara Netanyahu (L) attend the opening ceremony of the Maccabiah Games in Ramat Gan, Israel, 18 July 2013. The 19th Maccabiah Games, dubbed the 'Jewish Olympics', will start
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Sara, eiginkona hans. Mynd: EPA
Rannsóknarlögregla í Ísrael leggur til að Benjamin Netanyahu forsætisráðherra verði stefnt fyrir rétt vegna tveggja mútu- og fjársvikamála. Ríkissaksóknari landsins tekur ákvörðun um hvort af því verði.

Að því er kemur fram á fréttavef ísraelska dagblaðsins Ha'aretz er forsætisráðherrann annars vegar grunaður um að hafa þegið dýrar gjafir af vellauðugum kaupsýslumanni, kvikmyndaframleiðandanum Arnon Milchnan, í staðinn fyrir pólitíska greiða. Þá liggur hann undir grun um að hafa reynt að semja um það við útgefendur Yedioth Ahronoth, næst stærsta dagblaðs Ísraels, að hann fengi jákvæða umfjöllun í blaðinu fyrir að skaða keppinautinn, fríblaðið Israel Hayom.

Útgefandi Yedioth Ahronoth, Arnon Mozes, á einnig ákæru yfir höfði sér fyrir að hafa borið gjafir á Netanyahu. Því er haldið fram að gjafir sem forsætisráðherrann og eiginkona hans hafi þegið á undanförnum árum nemi jafnvirði hundraða milljóna króna.

Benjamin Netanyahu hefur margoft neitað því að hafa brotið af sér. Lögreglan eigi ekki eftir að finna neitt á sig, því það sé ekkert að finna. Þá hefur hann dregið í efa heiðarleika yfirmanna lögreglunnar sem stýrt hafa rannsókninni gegn honum. Að sögn talsmanns lögreglunnar hafa stuðningsmenn Netanyhu beitt margs konar þrýstingi til að reyna að stöðva rannsóknina.

Fjölmiðlar í Ísrael hafa eftir Ayelet Shaked dómsmálaráðherra að Netanyahu þurfi ekki að segja af sér þótt hann verði ákærður fyrir spillingu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi