Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Leggja fram tillögu um þjóðaratkvæði

29.03.2017 - 21:44
Píratar tilkynna að þeir bjóði stjórnarandstöðuflokkum og Viðreisn til viðræðna um ríkisstjórnarsamstarf fyrir kosningar
 Mynd: RÚV
Þingflokkur Pírata lagði í dag fram þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um samningaviðræður við Evrópusambandið. Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla vorið 2018 um hvort hefja eigi að nýju samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Píratar leggja til að spurningin í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði: „Vilt þú að ríkisstjórnin hefji að nýju samningaviðræður við Evrópusambandið um hugsanlega inngöngu Íslands?“ Svarmöguleikarnir yrðu samkvæmt tillögunni tveir: já og nei.

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009, eftir kosningar. Viðræðurnar drógust á langinn og voru settar á ís nokkrum mánuðum fyrir kosningar árið 2013. Deilur vöknuðu nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili um næstu skref. Að lokum sendi Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, stækkunarstjóra Evrópusambandsins bréf þar sem hann tilkynnti að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki. Hart var deilt á hann fyrir að gera þetta án undangenginnar atkvæðagreiðslu á þingi. 

Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð sömdu um það við gerð stjórnarsáttmála núverandi stjórnar að bíða með ákvörðun um Evrópumál þar til undir lok þessa kjörtímabils. Það stendur að óbreyttu fram á haust 2020.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV