Leggja fram nýtt stjórnarskrárfrumvarp

21.01.2019 - 19:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá, byggða á frumvarpi stjórnlagaráðs og vinnu Alþingis í kjölfarið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum.

Þar segir jafnframt að þetta sé í fyrsta skipti sem slíkt frumvarp sé lagt fram en framlagning þess feli í sér möguleikann á að halda vinnunni við nýju stjórnarskrána áfram þar sem frá var horfið árið 2013.

„Þann 20. október 2012 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um gildistöku nýju stjórnarskrárinnar, þar sem rúmlega 2/3 kjósenda svöruðu því að þeir teldu að tillögur stjórnlagaráðs ættu að verða lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þrátt fyrir það hefur Alþingi enn ekki lokið við lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að hafa haft til þess 2.284 daga.“

Þingmönnum og leiðtögum þjóðarinnar beri skylda til að halda áfram þeirri vinnu sem þeim var falið að vinna með þjóðaratkvæðagreiðslunni. „Þingflokkur Pírata leggur því sitt af mörkum með framlagningu uppfærðar nýrrar stjórnarskrár til að vilji íslensku þjóðarinnar verði virtur,“ segir í tilkynningunni. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi