Leggja dansskóna á hilluna vegna COVID-19

28.02.2020 - 08:00
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Félag eldri borgara á Selfossi hefur beðið þá sem hafa nýlega verið í sólarlandaferð að halda sig frá félagsstarfi næstu vikurnar. Formaður félagsins segir að fólk hafi tekið vel í tilmælin.

Félagarnir sem er um 700 fengu skilaboð frá formanninum í vikunni. Þar biður hún þá sem eru nýkomnir heim, eða hafa verið innan um fólk sem er nýkomið til landsins frá Ítalíu eða Tenerife, að halda sig frá félagsstarfi næstu tvær vikurnar. Guðfinna Ólafsdóttir, Formaður félags eldri borgara á Selfossi, segir að þar sé fólk sem sé viðkvæmast fyrir veirunni og því mikilvægt að fara varlega.   

„Það hringdi kona sem er hérna í föndri og leiðbeinandinn var að koma frá Tenerife og hún sagði: Ég bara mæti ekki ef hann mætir. Áður var ég búin að setja svona til að spritta hendur í húsið. Það koma svo margir hingað að mér fannst þetta bara allt í lagi.“

Guðfinna segir að afar virk starfsemi sé í félaginu. Þar sé dansað, spilað og prjónað, svo fátt eitt sé nefnt, á hverjum degi og oft á dag. Þrátt fyrir að einhverjir þurfi að hvíla félagsstarfið um tíma hafi flestir verið á sama máli um að mikilvægt sé að fara varlega og hafa vaðið fyrir neðan sig. Enginn hafi verið ósáttur. 

Fréttastofan ræddi við þónokkra félagsmenn sem sátu við handavinnu og spil. Sumir hafa áhyggjur af veirunni, aðrir ekki. Allir voru þó sammála um að eins og er séu ráðstafanir vegna hennar óþarfar . Viðtölin við félagana má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Eldri borgarar í Árborg.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Guðfinna Ólafsdótitir, formaður Félags eldri borgara á Selfossi.
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi