Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Leggja dagsektir á þrjár tannlæknastofur

05.02.2019 - 16:41
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur ákveðið að leggja dagsektir á þrjár tannlæknastofur verði ekki bætt úr verðmerkingum og öðrum upplýsingum á vefsíðum fyrirtækjanna fyrir 12. febrúar næstkomandi. Tannlæknastofunum verður þá gert að greiða 20.000 krónur á dag í sektir.

Neytendastofa kannaði upplýsingagjöf hjá 22 tannlæknastofum í júlí 2018. Engin þeirra uppfyllti öll skilyrði sem kveðið er á um í lögum og reglum um upplýsingagjöf um þjónustu, svo sem verðmerkingar.

Síðla árs 2018 kannaði Neytendastofa aftur vefsíður tannlæknastofanna og þá höfðu verið gerðar úrbætur á aðeins einni þeirra. Í kjölfarið voru send bréf til hinna fyrirtækjanna, 21 talsins, og farið fram á úrbætur. 

Þann 29. janúar 2019 tók Neytendastofa ákvörðum um að leggja dagsektir á þrjár tannlæknastofur, SP tannréttingar ehf., Tannlæknastofuna Turninn sf. og Tannlæknaþjónustuna slf. sem höfðu ekki gert viðeigandi lagfæringar á vefsíðum sínum, þrátt fyrir ítrekuð bréf Neytendastofu þess efnis. Á vefsíðum fyrirtækjanna vantar upplýsingar um verð, kennitölu þeirra, opinbera skráningu og leyfi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir