Leggja áherslu á að koma Hauki heim

16.03.2018 - 09:54
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Utanríkisráðherra, segir að mál Hauks Hilmarssonar, sem féll í Sýrlandi þar sem hann barðist með Varnarsveitum Kúrda, sé sérstakt. Utanríkisráðuneytið hafi ekki fengist við svona mál áður.

Fulltrúar International Freedom Batillion funduðu með móður Hauks fyrir viku þar sem kom fram að nánast útilokað væri að Haukur væri á lífi. Guðlaugur segir að ráðuneytið hafi lagt áherslu á að koma líki Hauks heim og að viðbrögð Tyrkja við fyrirspurnum ráðuneytisins hafi ekki verið neikvæð.

„Þeir hafa í sjálfu sér lýst yfir vilja til að aðstoða í málinu. Viðbrögð þeirra hafa ekki verið neikvæð. Við erum á sama báti og aðrar þjóðir sem eru að leita að sínu fólki. Það hefur verið mjög erfitt. Þetta er átakasvæði. Margir hafa fallið. Við höfum ekki séð árangur ennþá, en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo megi verða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Guðlaugur var í viðtali á Morgunvaktinni á rás 1. Hann segir ráðuneytið hafa mætt skilningi frá Tyrkjum. „Það er skilningur á því að við séum að vinna í þessum málum. Við getum í sjálfu sér ekki kvartað undan viðbrögðum Tyrkja við þeirri málaleitan. Hins vegar eru aðstæður eins og þær eru og við höfum ekki náð þeirri niðurstöðu sem við væntum og erum að vinna að, en við höldum áfram í því máli.“

Talið er að Haukur hafi fallið úr skotárás úr lofti. Á fundi móður Hauks kom fram að þrír menn hafi farið inn á svæðið til að reyna að ná í lík Hauks og tveggja félaga hans sem féllu með Hauki. Þeir menn særðust þó og eru líka látnir. Ekki er vitað hvort Tyrkir hefðu varðveit líkið eða hvort það sé enn í rústunum þar sem árásin var gerð.

Taugaeiturárás í Bretlandi grafalvarleg

Guðlaugur segir að taugaeiturárásin sem var gerð í breska bænum Salisbury í síðustu viku sé grafalvarleg. „Þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð í mjög mjög langan tíma. Staðan er mjög alvarleg. Auðvitað hafa samskipti Vesturveldanna og Rússa hafa verið mjög styrð eftir innrásina í Úkraínu 2014, þar sem við sjáum í fyrsta skipti frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar að landamærum er breytt með vopnavaldi. Maður finnur það að það er mikil samstaða meðal vesturlandanna þegar þetta mál kemur upp,“ segir Guðlaugur Þór. 

Therese May greindi frá því að taugaeitrið sem var nota gegn rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans hafi verið rakið til rússneska hersins. Annaðhvort væri þetta bein árás rússneskra stjórnvalda gegn Bretlandi, eða þá að efnið hefði komist í hendur annarra. Þá sagði May að bresk stjórnvöld verði að vera reiðubúin til að grípa til frekari aðgerða. Rússneski sendiherrann hafi verið kvaddur til svara.

Mikilvægt að hafa fjölbreyttan sendiherrahóp

Guðlaugur telur að utanríkisþjónusta hafi breyst mikið á síðustu árum. Ráðuneytið hyggst fjölga viðskiptafulltrúum. „Við hyggjum að opna viðskiptaskrifstofur á svæðum þar sem að við þurfum að sækja fram á ef við ætlum að halda hér uppi lífskjörum í landinu. Við erum fríverslunar- og útflutningsþjóð. Við þurfum að auka útflutningsverðmæti okkar um einn milljarð á hverri viku á næstu árum ef við ætlum að halda 3% hagvexti eins og allar áætlanir gera ráð fyrir,“ segir Guðlaugur.

Hann segir ekki útlit fyrir að sendiráðum verði fækkað enn frekar en stefnt er að því að loka sendiráði Íslands í Vín. Guðlaugur segir Ísland vera með fá sendiráð miðað við aðrar þjóðir og að þau séu á þeim stöðum sem er mikilvægt sé að hafa sendiráð. Þá telur Guðlaugur mikilvægt að hafa fjölbreyttan sendiherrahóp. „Það eru 37 sendiherrar, af því eru þrír úr stjórnmálalífinu. Enginn úr viðskiptalífinu en allir aðrir koma innan úr utanríkisþjónustunni sem er auðvitað mjög mikilvægt en það takmarkar auðvitað breiddina þegar kemur að því að stýra þessu.“ 

Hann segir að það sé ekki rétt leið að auglýsa eftir sendiherrum. „Þetta er ekki eins og í venjulegum fyrirtækjum að það hætti einhver annar þú bætir þá við. það er í mörgu að hyggja í þessu ég veit ekki til þess að nein þjóð hafi farið þá leið að auglýsa sendiherrastöður. Ég veit ekki hvort það er góð hugmynd.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi