Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lausamunir fuku á bíla í gær

06.11.2017 - 10:35
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Lögregla og björgunarsveitir á Suðurnesjum voru á þönum fram eftir kvöldi í gær að elta fjúkandi lausamuni í óveðrinu. Ýmiss konar lausamunir tókust á loft í rokinu og fuku um með tilheyrandi eignaspjöllum.

Í morgun var lögreglu tilkynnt um talsvert tjón á þremur bifreiðum á Ásbrú sem virtist tilkomið þannig að lausamunir hefðu fokið á þær.

Í nótt var tilkynnt um að farangursvagnar hefðu fokið á bifreið á Keflavíkurflugvelli.

Í gærkvöld var meðal annars tilkynnt um bifreið á Ásbrú sem skilin hafði verið eftir án þess að vera í gír eða handbremsu og var hún byrjuð að fjúka af stað þegar gripið var í taumana.

Þá bárust margar tilkynningar um þakplötur sem voru farnar af stað í storminum og aðra lausamuni sem þurfti að koma böndum á svo þeir yllu ekki tjóni.