Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Laus við HIV eftir stutta lyfjameðferð

25.07.2017 - 06:23
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Barn sem greindist með HIV veiruna við fæðingu fyrir tíu árum síðan er nú einkennalaust eftir stutta lyfjameðferð skömmu eftir fæðingu. Barnið hefur ekki þurft frekari lyfjagjöf síðan. Guardian greinir frá þessu og hefur eftir vísindamönnum sem eru á ráðstefnu í París.

Vísindamennirnir að baki rannsóknarinnar vonast til þess að geta lært af niðurstöðum hennar. Barnið sem sagt var frá í fyrirlestrinum fæddist í Suður-Afríku, og tók þátt í rannsókn sem gerð var á fjölda barna sem greindust með HIV veiruna við fæðingu árið 2007. Börnunum var skipt í tvo hópa, annar hópurinn fékk lyfjameðferð í 40 vikur en hinn hópurinn í 96 vikur. Barnið sem fjallað var um í París var eitt 143 sem fékk styttri meðferðina. Um leið og lyfjagjöfinni lauk var HIV veiran ekki lengur greinanleg í blóðprufum, og hefur ekki fundist síðan.

Vísindamennirnir segja þó að enn sé allt of snemmt að tala um sigur í lækningunni á HIV. Önnur börn sem tóku þátt í rannsókninni eru ekki laus við veiruna. Anthony Fauci, formaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, segir fleiri rannsóknir nauðsynlegar til að læra hvernig hægt er að koma í veg fyrir að HIV veiran láti aftur á sér kræla síðar hjá börnum sem greinast við fæðingu. Hann segir þó að barnið sem rætt var um í París veki vonir um að lyfjameðferð skömmu eftir fæðingu dugi til þess að tryggja HIV smituðum börnum heilbrigt ónæmiskerfi síðar á lífsleiðinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV