Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Laus undan ótta við að deyja

14.05.2018 - 19:17
Tekist hefur að lækna fólk af áráttu- og þráhyggjuröskun í um 70 prósent tilvika með fjögurra daga meðferð. Tæplega tuttugu hafa lokið meðferðinni hér á landi.

Fyrir sex mánuðum síðan hóf Kvíðameðferðastöðin að bjóða upp á nýrri meðferð að norskri fyrirmynd. Meðferðin gengur út á að sjúklingurinn fer í stranga fjögurra daga meðferð þar sem hann er látinn takast á við vandamál sín með beinum hætti.

600 hafa lokið meðferð

Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði, segir að undirbúningur hafi staðið í eitt ár áður en fyrstu einstaklingarnir fóru í gegnum meðferðina hér, en talsverð reynsla er komin í Noregi.

„Það eru 600 manns sem hafa farið í gegnum hana, með alveg glimrandi árangri, það er að segja 75 prósent sem nær fullum bata af vandanum,“ segir hún.

En hvaða hugsanir eru þetta?

„Það geta verið efasemdir eins og hvort ég hafi keyrt á einhvern á leið í vinnuna, efasemdir um kynhneigð eða hvort ég gæti til dæmis skaðað einhvern eða misnotað barn. Þetta geta líka verið áhyggjur af smiti, sýklum og óhreinindum,“ segir hún.

„Þetta getur verið allt á milli himins og jarðar. Þetta er óþægilegar hugsanir sem maður vill ekki hafa sem sækja á mann og þá fer maður í áráttu, maður fer að gera eitthvað til að losna undan þessum hugsunum eða láta sér líða betur.“

Hætti að geta borðað

Anton Gunnar Ingibergsson er 21 árs og lauk meðferð fyrir tæpu hálfu ári en hann segist hafa fundið fyrir kvíða, sem leiddi af sér áráttu- og þráhyggjuröskun, síðan hann var átta ára.

„Fyrir mig var ég með svokallaðan ofsakvíða og heilsukvíða. Ég var virkilega hræddur um líf mitt, þetta var farið að stjórna lífi mínu algjörlega. Ég var farinn að hætta að geta mætt á æfingar, hætt að geta mætt í skólann, hætt að geta borðað allskonar hluti,“ segir hann.

„Í rauninni það sem þessi meðferð snýst um er að takast á þessum kvíða sem liggur með þér og rauninni þessi OCD sem er stjórntæki fyrir kvíða.“

Segist nú geta lifað lífinu

Kvíði er þó ekki eina orsökin og eru ólíkir einstaklingar sem hafa undirgengist meðferðina, sem er einstaklingsmiðuð. Anton segir að birtingarmynd vandans hjá sér hafi verið margvíslega og segist eiga mörg dæmi.

„Þegar ég var ungur var ég með bílnúmer á heilanum, ég kunni öll bílnúmer utan að, og ég vissi ekki að það væri árátta, og til dæmis þegar ég labbaði fram hjá blokk þurfti ég alltaf að líta á gluggana og telja þá ákveðið oft. Ég gat aldrei horft í hægra augað á fólki, ég þurfti að horfa á vinstra augað,“ nefnir hann sem dæmi.

Núna nokkrum mánuðum eftir meðferðina segist Anton ekki lengur fá ofsakvíðaköst eða hræðast heilsubresti og dauða, eins og áður.

„Nei ég er farinn að lifa lífinu,“ segir hann hlæjandi.

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV