Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Launin hækka um hálfa milljón á mánuði

31.10.2016 - 17:02
Kjararáð hefur hækkað laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Hækkunin tekur gildi strax um mánaðamótin.

Samkvæmt úrskurði kjararáðs verða laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna verður 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.

Samkvæmt þessu hækka laun forsætisráðherra og laun forseta því um meira en hálfa milljón á mann á mánuði. Laun forsetans hækka frá og með 1. nóvember en laun alþingismanna og ráðherra frá og með 30. október. 
 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV