Launatekjur hækka minna á Ísafirði

03.07.2017 - 13:50
Ísafjörður Bakarí Gamlabakaríið Eymundsson Bókhlaðan Stjórnsýsluhús Íslandsbanki Banki Ísafjarðarbær Bæjarskrifstofur Bónus
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Launatekjur Ísafjarðarbæjar hafa ekki hækkað nærri því eins mikið og annars staðar á landinu það sem af er ári. Þetta er ein skýring þess að útsvarstekjur bæjarins voru 86 milljónum minni en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir fyrstu fimm mánuði ársins. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, segir sjávarútveg vega þungt í atvinnulífi bæjarins og því finni Ísafjörður sterklega fyrir áhrifum sterkrar krónu, fiskverðs og sjómannaverkfallsins í upphafi árs.

Aukning á launatekjum bæjarins fyrstu fjóra mánuði ársins var að meðaltali tæp þrjú prósent en um níu prósent á landinu heilt yfir, segir Gísli og vísar þar í tölur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem fá upplýsingar frá Ríkisskattstjóra. 

„Það sem er nokkuð augljós skýring í janúar og febrúar er sjómannaverkfallið,“ segir Gísli í samtali við fréttastofu. Vísar hann í rúmlega tveggja mánaða verkfalli sjómanna sem lauk í febrúar. „Í mánuðunum sem á eftir fylgja sjáum við breytt löndunarmynstur, þar sem minna er landað á Ísafirði. Hluti af því er væntanlega þrýstingur frá háu gengi og fiskverði, sem veldur því að það er óhagstæðara að landa afla á landinu. Sjávarútvegur er það stór hluti af atvinnulífi bæjarins að þessar þættir vega þungt í rekstri bæjarins.“

Gísli vonast þó til þess að tekjurnar skili sér á seinni hluta ársins. „Við gætum þurft að fara varlega og gæta aðhalds næstu mánuði en ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við látum fjárhagsáætlun standast“. Nefnir hann að smávægileg íbúafjölgun hafi verið í bænum sem hann vonar að haldi áfram. Þá sé ágætis svigrúm í fjárhagsáætlun. „Ég vonast til að við getum höndlað þetta án nokkurra áfalla.“

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi