Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Launahæsti forstjórinn með 1,6 milljónir

16.07.2013 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Launahæsti forstjórinn sem starfar hjá ríkinu er með rúmar 1.600 þúsund krónur í mánaðarlaun eftir að kjararáð úrskurðaði um hvernig haga skyldi föstum launum og yfirborgunum forstjóra og framkvæmdastjóra sem vinna fyrir hið opinbera og fyrirtæki í þess eigu.

Alþingi samþykkti eftir hrun að lækka laun stjórnenda hjá ríkinu þannig að enginn hefði hærri föst laun en forsætisráðherra. Þetta kom til framkvæmda með úrskurði kjararáðs í febrúar 2010 þegar laun 42 stjórnenda voru lækkuð. 

Launahæsti forstjórinn eftir úrskurð kjararáðs er Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Heildarlaun hans verða rúmar 1.600 þúsund krónur. Laun hans hafa þar með hækkað um 290 þúsund krónur, eða 21 prósent, síðan þau voru lækkuð um þriðjung í kjölfar lagasetningar Alþingis 2009.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri stefndi ríkinu fyrir að kjararáð lækkaði umsamin laun hans um 40 prósent en tapaði málinu. Laun hans hafa nú hækkað um 20 prósent og verða rúm ein og hálf milljón á mánuði eftir úrskurð kjararáðs.

Steinþór Pálsson Landsbankastjóri fær  tæplega 1,4 milljónir króna á mánuði og hafa laun hans hækkað um 19,5% frá því kjararáð úrskurðaði fyrst um laun hans 2010.

Launavísitalan hefur hækkað um tæp 24 prósent frá febrúar 2010.

Leiðrétting kl. 19:17: Í útvarps- og sjónvarpsfrétt var sagt að þetta væri fyrsta launahækkun forstjóranna og framkvæmdastjóranna frá 2010. Hið rétta er að föst laun þeirra fyrir dagvinnu hafa tekið hækkunum líkt og laun annarra sem falla undir kjararáð. Þær hækkanir eru inni íheildarhækkuninni frá 2010.