Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lauder-erfingi gagnrýnir íslenska ráðamenn

18.09.2015 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia - RÚV
Ronald Lauder, milljarðamæringur, erfingi Estee Lauder snyrtivörurisans og forseti Heimsþings gyðinga, hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir að bregðast ekki af nægilegri hörku við ákvörðun Reykjavíkurborgar að kaupa ekki vörur frá Ísrael. Þá skoðar sendiherra Ísraels lögmæti aðgerðanna.

Greint er frá ummælum Lauder á vef Jerusalem Post þar sem vísað er í yfirlýsingu frá Heimsþingi gyðinga. Lauder er á vef dagblaðsins sagður náinn vinur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Í yfirlýsingunni hvetur Lauder ríkisstjórn Íslands til að vinna gegn þessari ákvörðun Reykjavíkurborgar - nauðsynlegt sé að vita hvar ríkisstjórn landsins standi í þessu mikilvæga máli.

Sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi sagði í hádegisfréttum að kannað verði hvort ákvörðun Reykjavíkurborgar að sniðganga ísraelskar vörur standist íslensk lög. Hann vonast eftir að fá að tala máli Ísraels gagnvart borgarfulltrúum þegar hann kemur til Íslands í næsta mánuði.

Forsaga málsins er sú að Borgarstjórn samþykkti á þriðjudaginn að fela innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum meðan á hernámi Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna stendur.

Málefni Íslands heyra undir ísraelska sendiráðið í Noregi og er Raphael Schutz sendiherra. Hann er staddur í Ísrael vegna heimsóknar utanríkisráðherra Noregs þangað á næstu dögum. Schutz segist hafa rætt ákvörðun Reykjavíkurborgar við ráðamenn í Jerúsalem.

Schutz segir að Ísraelsmenn fordæmi ákvörðunina harðlega. Erfitt sé að átta sig á þeim rökum sem liggja að baki henni. Í Ísrael sé stöðugleiki ólíkt Írak, Sýrlandi og öðrum ríkjum í Mið-Austurlöndum. Þá sé athyglisvert að Ísraelsríki sé það eina sem Reykjavíkurborg ætli að sniðganga vörur frá þó önnur ríki séu einnig sökuð um mannréttindabrot og nefnir hann í því sambandi Íran og Kúbu. Þá vísar hann í framlag Ísraels til læknavísinda og mannúðarmála í Afríku og í tillögunni felist ákveðin hræsni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV