Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Látinn eftir hnífstunguárás á Austurvelli

08.12.2017 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Annar mannanna sem voru stungnir með hnífi á Austurvelli um síðustu helgi er látinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn, albanskur ríkisborgari, var úrskurðaður látinn klukkan 9.45 í morgun. Hann var stunginn nokkrum sinnum og komst aldrei til meðvitundar eftir árásina.

Íslenskur maður á þrítugsaldri var handtekinn í Garðabæ á sunnudag og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. desember grunaður um árásina. Að sögn lögreglu miðar rannsókn málsins vel. 

Hinn maðurinn, sem var stunginn með hnífi á sama stað og var sömuleiðis fluttur særður á bráðamóttökuna, hefur verið verið útskrifaður af Landspítalanum. Þeir eru báðir albanskir ríkisborgarar.

Uppfært kl. 17.17:
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að rannsókn málsins breytist nú í manndrápsrannsókn, eðli málsins samkvæmt. Það hafi þó engin áhrif á það hvernig málið er unnið. Hann segir að lögregla hafi yfirheyrt lungann af vitnunum að árásinni og telji sig vera með ágæta mynd af atburðarásinni. Hann vill þó ekki úttala sig um það hvað leiddi til árásarinnar, né hvort maðurinn sem situr í haldi hafi játað verknaðinn. Lagt var hald á hníf sem nú er rannsakað hvort var notaður við árásina.

Að sögn Gríms eru ættingjar hins látna komnir til landsins. Hann hafði dvalið hér á landi um skeið.