Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Latibær til Bretlands - Magnús hættir

30.05.2014 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Scheving er hættur að stýra Latabæ og verður fyrirtækið flutt úr Garðabænum til Bretlands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Turner-fjölmiðlasamsteypan, sem keypti Latabæ árið 2011, ætlar að stórauka fjárfestingu í leiksýningum og sækja af meiri krafti með Latabæ inn í netheima.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Latabæ. Þar segir jafnframt að frá því að Turner keypti fyrirtækið hafi verið framleiddar tvær nýjar sjónvarpsþáttaraðir um Latabæ. Þeir verða frumsýndir á sjónvarpsstöðvum fyrirtækisins um allan heim í haust.

Þá segir enn fremur að fyrirtækið eigi nú um hundrað þætti - það magn nægi til að svara eftirspurn yngstu kynslóðarinnar um ókomna framtíð. „Ekki verða því not lengur fyrir stúdíóið góða hér á landi sem skilað hefur fyrirtækinu þessum mikla fjársjóði af sjónvarpsefni. Aðkoma Turner hefur skilað 5 milljörðum í erlendum gjaldeyri inn í íslenskt efnahagslíf og yfir 160 ársverk hafa verið sköpuð árlega þessi þrjú ár,“ segir í tilkynningunni.

Við þessa flutninga hverfa fimm fastráðnir starfsmenn Latabæjar á braut. Tökum á sjónvarpsþáttunum lauk í október og hvarf þá meirihluti þeirra 160 verktaka sem störfuðu við framleiðsluna. Um fjörtíu starfsmenn unnu við eftirvinnslu og lauk þeirra störfum í apríl.  Í tilkynningunni frá Latabæ segir að Ísland verði áfram fyrirtækinu mikilvægt - stærsta verkefni ársins verði 20 ára afmælissýning Latabæjar í Þjóðleikhúsinu sem Rúnar Freyr Gíslason leikstýrir.

Í tilkynningu Latabæjar segir enn fremur að samningi Turners og Magnúsar sé að ljúka en hann var gerður 2011 þegar fyrirtækið var selt. Ákveðið hefur verið  að endurnýja þann samning ekki en Magnús verður þó áfram fyrirtækinu innan handar sem ráðgjafi og sérstakur sendiherra Latabæjar næstu tvö til þrjú árin hið minnsta.

[email protected]