Langlífasti Íslendingurinn léttur og kátur

Mynd með færslu
 Mynd:

Langlífasti Íslendingurinn léttur og kátur

23.05.2014 - 20:13
Elsti núlifandi Íslendingurinn man vel eftir frostavetrinum mikla og segir lykilinn að langlífi felast í að að vera léttur og kátur.

Guðríður Guðbrandsdóttir fagnar 108 ára afmæli í dag, en hún er við hestaheilsu og létt í lundu. Guðríður er elsti núlifandi Íslendingurinn, en aðeins fjórir aðrir Íslendingar, allt konur, hafa náð svo háum aldri. Þrjár urðu 109 ára og ein 108 ára.

En hverju þakkar Guðríður langlífið? „Ég held það sé gott að vera bara léttur og kátur, ánægður með lífið,“ segir hún.

Guðríður fæddist í Dalasýslu. Þaðan fluttist hún í Búðardal og bjó þar með manni sínum og þremur fósturbörnum til ársins 1952 en þá fluttu þau til Reykjavíkur.

84 erindi utanbókar

Hún hefur lifað tímana tvenna. „Ég man eftir Frostavetrinum mikla. Þá átti ég heima á Spágilsstöðum í Laxárdal og það fraus allt vatn, en niðri í túninu var þór burður þar sem hægt var að ná í vatn til að drekka en það var lengi að renna. Bera þurfti snjó inn í fjósin til að gefa dýrunum að drekka,“ segir hún. 

Guðríður er mikil handavinnukona og heklaði og prjónaði jöfnum höndum þangað til sjónin fór að daprast. Hún hefur mikið dálæti á að hlusta á hljóðbækur auk þess sem hún fylgist með fréttum. Þá er Guðríður mikil áhugakona um skáldskap og getur þulið öll 84 erindi Gilsbakkaþulu blaðlaust.