Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Langflestir vilja rukka ferðamenn

03.03.2014 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill stuðningur er við hugmyndir um að rukka ferðmenn fyrir aðgang að náttúruperlum á Íslandi ef marka má skoðanakönnun sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga stóðu fyrir.

Fullyrt er í tilkynningu frá samtökunum að það sé áhyggjuefni hve lítið fjármagn verði eftir á suðurlandi til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða, þrátt fyrir gríðarlega umferða ferðamanna um svæðið. Í könnuninni sögðust 82,4% hlynt gjaldtöku en skiptar skoðnir eru um hvaða leið skuli fara í þeim efnum. Flestum hugnast brottfarar- eða komugjald eða 28,3%. 21,5% vildu aðgangseyri á einstaka staði og 19,5% vildu helst blöndu af náttúrupassa og gjaldtöku á einstaka staði. Litlu færri vildu náttúrupassa fyrir allt landið en ekki kemur fram í tilkynningu frá SASS nákvæmlega hversu hátt hlutfall styður slíkan náttúrupassan. Þá ber að horfa til þess að nokkrar útgáfur af náttúrupassa voru nefndar í könnuninni. Auk þess sem þegar hefur verið nefnt var hægt að velja náttúrupassa fyrir landshluta/ákveðin svæði og náttúrupassa fyrir þjóðgarða/valin friðlýst svæði.

Sumir sem svöruðu könnuninni nefndu að Íslendingar ættu ekki að þurfa að greiða fyrir aðgang að íslenskri náttúru. Einnig að skattleggja ætti afþreyingarfyrirtæki sem bjóða gönguferðir, bátsferðir eða skoðunarferðir sem í dag greiða engan virðisaukaskatt. 

Alls tóku 837 manns þátt í könnuninni þar af starfa 333 í ferðaþjónustu.