Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Langflestir stilla upp á framboðslista

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nær allir stjórnmálaflokkar ætla að stilla upp á framboðslista fyrir Alþingiskosningarnar 28. október. Forsvarsmenn flokkanna vísa margir hverjir í að það sé vegna tímasparnaðar því mjög stutt sé til kosninga. Píratar eru eini flokkurinn sem heldur prófkjör í öllum kjördæmum. Vinstri græn stilla upp í flestum kjördæmum en ekki er fullvíst að svo verði í Suðvesturkjördæmi. Það verður ákveðið á fundi kjördæmisráðs í Hafnarfirði í kvöld.

Stillt verður upp á lista Vinstri grænna í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Kjördæmisráð Norðvesturkjördæmis hittist í gær og ákveðið var að stillt verði upp á lista þar einnig. Kjördæmisþing í Norðausturkjördæmi verður um næstu helgi en sá listi verður líklega ekki staðfestur fyrr en eftir landsfund Vinstri grænna sem lýkur áttunda október. Björn Valur Gíslason hætti sem varaformaður flokksins í ágúst. Hann var í þriðja sæti listans í síðustu kosningum. Eftirmaður hans verður því líklega ofarlega á listanum og því ekki hægt að staðfesta valið fyrr en að loknum landsfundi. Stjórn kjördæmisráðs Suðurkjördæmis er enn að störfum. Talið er líklegt að þar verði stillt upp á lista en það er ekki eins víst að svo verði í Suðvesturkjördæmi en það verður ákveðið á fundi kjördæmisráðs í Hafnarfirði í kvöld.

Framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmunum ætla að stilla upp á lista fyrir alþingiskosningarnar 28. október. Þá verður einnig stillt upp á lista í Norðausturkjördæmi en það var ákveðið á kjördæmisþingi í Reykjaskóla í Hrútafirði á laugardag. Önnur kjördæmisráð eru að störfum og funda á næstu dögum þar sem tekin verður ákvörðun um hvernig listar verða skipaðir. 

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar funduðu í öllum kjördæmum um helgina. Það verður stillt upp á lista í öllum kjördæmum, nema Norðvesturkjördæmi, og uppstillinganefndir eru að störfum. Á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar á Akranesi um helgina var ákveðið að haldinn yrði kjörfundur sem verður á sunnudag, fyrsta október. 

Píratar eru með prófkjör í öllum kjördæmum en frestur til að bjóða sig fram rann út um helgina. Prófkjörið stendur í viku og lýkur næsta laugardag og þá liggja framboðslistar flokksins fyrir. Birgitta Jónsdóttir ætlar ekki að bjóða sig fram. Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, býður sig fram að nýju í sameiginlegu prófkjöri Reykjavíkurkjördæma norður og suður og Jón Þór Ólafsson í Suđurkjördæmi. Þar fyrir utan er enginn sem áður hefur setið á þingi fyrir Pírata, að undanskildu síðasta kjörtímabili.

Prófkjör hafa nánast verið regla til að velja á lista hjá Sjálfstæðisflokknum en breyting gæti orðið á í ár. Það skýrist á fulltrúaráðsfundi á miðvikudag hvaða aðferð verður beitt við val á lista í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Kjördæmisráð um allt land eru að skipuleggja fundi og niðurstaða liggur líklega fyrir um eða eftir næstu helgi. 

Stillt er upp á lista Bjartrar framtíðar sem stjórn flokksins kýs síðan um. Búist er við að listinn verði lagður fram til stjórnar í lok vikunnar og því gætu framboðslistar legið fyrir um eða eftir næstu helgi. 

Viðreisn stillir upp frambjóðendum á lista í öllum kjördæmum. Sú vinna er hafin en stefnt er að því að ljúka henni í byrjun október. 

Stillt er upp á lista Flokks fólksins í öllum kjördæmum. Tveir oddvitar hafa verið kynntir til sögunnar. Inga Sæland leiðir lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna og Ólafur Ísleifsson verður oddviti í einhverju þeirra. Allir oddvitar verða kynntir á haustþingi á laugardag en óvíst er hvort framboðslistar verða birtir á haustþinginu.

Flokkar sem ekki náðu kjöri síðast og hafa ekki náð fimm prósenta markinu í könnunum ætla flestir að bjóða fram að nýju. Alþýðufylkingin stefnir á lista í öllum kjördæmum. Dögun stefnir að því sömuleiðis. Húmanistaflokkurinn ætlar ekki að bjóða fram sökum tímaskorts. Íslenska þjóđfylkingin bauð fram í þremur kjördæmum í fyrra en stefnir á fleiri í ár. Frelsisflokkurinn sem stofnaður var á þessu ári ætlar ekki að taka þátt í kosningunum og Sósíalistaflokkurinn ekki heldur. Björn Ingi Hrafnsson boðaði í fyrradag stofnun nýs stjórnmálaflokks, Samvinnuflokksins, sem bjóða muni fram í öllum kjördæmum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði sig úr Framsóknarflokknum í gær og ætlar að færa sig yfir í nýtt stjórnmálaafl en ekki liggur fyrir hvort þetta afl býður fram í þingkosningum 28. október.