Langdreginn Vinafundur

Mynd:  / 

Langdreginn Vinafundur

26.11.2018 - 19:50

Höfundar

Leikritið Insomnia, sem er innblásið af sjónvarpsþáttunum Friends, er helst til lausbeislað og langdregið fyrir smekk Hlínar Agnarsdóttur, gagnrýnanda Menningarinnar.

Hlín Agnarsdóttir skrifar: 

Leikhópurinn Stertabenda treður nú upp öðru sinni í Þjóðleikhúsinu með verkið Insomnia (Svefnleysi) sem flokka má sem einhvers konar spin-off eða áhugaspuna byggður á bandarísku sjónvarpsseríunni Friends sem sýnd var á árunum 1994-2004 og naut mikilla vinsælda hjá ákveðnum áhorfendum einkum af yngri kynslóð. Leikhópurinn hefur fengið til liðs við sig danska leikskáldið Amalie Olesen sem er skráð fyrir texta verksins ásamt leikhópnum en leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir þýðir á íslensku. Áður hefur leikhópurinn tekist á við leikritið Stertabenda og uppskorið lof og prís og eftirsótt Grímuverðlaun sem sviðslistasproti ársins.

Langdreginn inngangur

Titill verksins vísar til upphaflega heitis þáttanna um Friends, Insomnia Café, en Insomnia þýðir svefnleysi. Fyrir þá sem eiga erfitt með að sofna eða þá sem sofna alltaf á fyrstu mínútunum í leikhúsi er alveg kjörið að sofna undir löngum inngangsþættinum í þessu nýja verki. Þar fer fram langdregin sköpunar- og upplýsingasaga, undirbúningur fyrir það sem koma skal þegar leikhópurinn tekst á við að líkamna persónurnar frægu úr Friends.

Inngangurinn gæti gerst í framtíðarþjóðfélagi þar sem lýðræðið og mannleg gildi hafa náð fullkomnun. En hann er í reynd framhaldslíf persónanna og myndar ramma utan um allt verkið ásamt lokaþættinum sem fjallar um óumflýjanlegan dauða þeirra þegar framleiðslu þáttanna lýkur. Hvernig þessi langi og ekki nógu skemmtilegi inngangur tengist síðan Friends sjónvarpsþáttunum er mér hulin ráðgáta og kannski aðeins ætlaður innvígðum aðdáendum þeirra.

Lausbeislaðir sketsar

Með kaldhæðni og ádeilu að vopni gera höfundur, leikhópur og leikstjóri tilraun til krufningar á helgimyndum afþreyingariðnaðarins bandaríska eins og hann birtist okkur í persónunum sex sem mynda kjarnann í Friends, þeim Rachel, Ross, Joey, Monicu, Phoebe och Chandler. Sú krufning fer ekki aðeins fram í inngangsþættinum langa heldur í sex mislöngum þáttum sem samanstanda af lausbeisluðum sketsum. Kjarni þeirra felst í að afbyggja klisjur í hegðun og framkomu persónanna með því að sviðsetja og leika sér að helstu persónueinkennum þeirra og veikleikum eins og sjálfsást og athyglissýki, áföllum, hégóma og tilfinningasemi.

Í áðurnefndum inngangsþætti er leiksviðið alhvítt, búningarnir sömuleiðis alhvítar skikkjur sem leiða strax hugann að þeim ríkjum til forna sem gerðu lýðræðistilraunir eins og Aþeningar eða draumnum um himnaríki á jörðu þar sem ríkir umburðarlyndi og réttlæti öllum til handa. Allir leikarar verksins, sex talsins, eru kynntir til leiks og leika sjálfa sig í heimspekilegri ,,samdrykkju“ sem fram fer á leiksviðinu. Þeir reyna eftir bestu getu að misstíga sig ekki í þeim pólitíska rétttrúnaði sem samræðurnar endurspegla en það kemur fljótlega á daginn að það reynist þrautinni þyngra að vera góða fólkið og lifa í samræmi við hugsjónir sínar og lífsskoðanir. Þegar líða tekur á leikinn og kunnuglegar persónur sápunnar fara að birtast, breytist leiksviðið, ótal dyr opnast á hvítum hliðarveggjunum og gefa færi á farsaleik og óvæntum uppákomum.

Samsköpunarleikhús

Í þessari uppfærslu er mikil áhersla lögð á það sem kallað hefur verið samsköpunarleikhús eða devised theatre upp á ensku en í því eru allir sviðslistamennirnir höfundar og sérkenni þeirra og sérhæfileikar nýttir til hins ýtrasta í sköpunarferlinu. Þeir eru m.ö.o. ekki endilega að leika aðrar persónur heldur fyrst og fremst sjálfa sig í glímunni við viðfangsefnið. Leiksýningin sem á endanum birtist fyrir augum okkur verður til í einum allsherjar spuna með tilboðum allra sem leikstjórinn síðan velur og vinnur úr.

Leikhópurinn tilheyrir nýrri kynslóð sviðslistamanna sem eru ekki einungis leikarar heldur líka menntaðir sviðshöfundar. Í sameiningu skapa þau þessa leiksýningu sem samanstendur af ærslafullum leikatriðum, söngnúmerum og ýmsum uppátækjum með tilheyrandi útfærslum í búningum, gervum og lýsingu. Ærslin og fyndnin kvikna þó ekki fyrir alvöru fyrr en eftir hlé en þá eru þegar liðnar 90 mínútur af leiknum.

Hvert er erindið?

Flestir í leikhópnum áttu þó sín augnablik og spretti, um borð eru margir hæfileikaríkir leikarar sem óþarfi er að gera upp á milli. Allir fá þeir að láta ljós sitt skína einkum í gamanleik og tónlistarflutningi sem er stór þáttur í uppfærslunni en þar kemur tveggja kvenna hljómsveitin Eva við sögu. Ég gat hlegið innilega að einstaka atriðum eftir hlé en á heildina litið var þetta ansi teygður lopi. Leikhópurinn virðist þó hafa skemmt sér vel við sköpun verksins sem ef til vill er mikilvægast hér og eflaust eiga aðdáendur Friends þáttanna eftir að skemmta sér með leikhópnum en það var á mörkunum að þessi langloka héldi mér frá upphafi til enda. Ég spyr mig um erindi verksins og alla samsetningu þess, hefði ekki mátt beita skærum oftar og gera þetta allt markvissara í framsetningu á leiksviðinu?