Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Langbylgjuútsending datt út á Austurlandi í gær

12.12.2019 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Langbylgjuútsendingar duttu út á Austurlandi í gær. Talið er að útsendingin hafi legið niðri í um þrjár klukkustundir. Samkvæmt upplýsingum frá tæknideild RÚV varð bilun í búnaði í langbylgjustöðinni á Eiðum. Ekki hafi tekið langan tíma að koma því í samt lag.

Langbylgjuútsendingar gegna mikilvægu öryggishlutverki í almannavarnakerfi landsins.  Hlutverk þess er aðallega þríþætt:

1. Langbylgjan hefur mikla yfirburði í langdrægni út á fiskimiðin, miðað við FM sendingar.
2. Langbylgjan er varaleið þegar bilanir verða í FM kerfinu.
3. Langbylgjan fyllir í göt í dreifingu FM til landsins upp til dala og fjalla og hefur samfellda viðtöku í bifreiðum langar vegalengdir.

Til þess að kostir langbylgjusendinga skili sér að fullu til útvarpshlustenda , er nauðsynlegt að þeir eigi og noti viðtæki með langbylgjusviði á heimilum, í farartækjum og sem hluta af ferðabúnaði og kunni að skipta fyrirvaralaust á milli FM og langbylgju eftir því sem þörf kann að gerast. 

Nauðsynlegt er að gæta þess við innkaup á útvarpsviðtækjum, að langbylgja sé í tækinu, það getur komið sér vel þegar mest ríður á.

Langbylgjustöðvarnar á Gufuskálum og Eiðum þjóna nú landinu öllu og miðum. Sendirinn á Gufuskálum, 300 kW að afli, var formlega tekinn í notkun 8. september 1997, og sendirinn á Eiðum, 100 kW, var formlega tekinn í notkun 18. nóvember 1999. Fljótlega eftir að útsendingar hófust frá nýju langbylgjustöðvunum kom í ljós mun meiri langdrægni en frá eldri stöðvum. Ríkisútvarpinu hafa borist staðfestingar á móttöku frá Færeyjum, Írlandi, Þýskalandi, Hollandi og austurströnd Bandaríkjanna. Áhafnir á íslenskum skipum hafa heyrt sendingarnar í Smugunni og á Flæmska hattinum.