Landvernd stefnir umhverfisráðherra

30.11.2016 - 17:47
Landvernd og umhverfisverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit hafa stefnt umhverfisráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, fyrir að friðlýsa ekki ákveðin svæði í Skútustaðahreppi. Sigrún segir það leitt hve málinu hafi þokast hægt áfram.

Þegar lög um verndun Mývatns og Laxár voru sett árið 2004 var mesta áherslan á að vernda lífríki í vatninu og á vatnasvæðinu. Í lögunum er einnig bráðabirgðaákvæði sem kveður á um friðlýsingu fleiri svæða í kring sem hefðu mest náttúruverndargildi.  

Aðeins örfá svæði verið friðlýst

„En síðan taka svona svæði og svæði fyrir utan vatnið sem væru verðmætust með tilliti til jarðfræði og friða þau sérstaklega og þetta átti að gera og vera búið fyrsta janúar 2008 en aðeins örfá svæði hafa verið friðlýst,“ segir Snorri Baldursson, formaður Landverndar.

Dimmuborgir eru eitt dæmi um það, en mikið verk er óunnið. Landvernd krefst þess nú að friðlýsingu þessara svæða verði lokið, og horft er til landslagsheilda fremur en til einstakra náttúrufyrirbæra eins og tíðkaðist á árum áður.  Snorri segir að brýnt sé að vernda þessi svæði.  

Hefði breytt áformum um Kröflulínu

„Þar á meðal eru náttúrulega mjög verðmæt svæði sem eru undir ágangi ferðamennsku til dæmis hverarönd, leirhnjúkssvæði og svo náttúrulega leirhnjúkshraunið sem er núna sótt að af Landsneti og framkvæmdaaðilum,“ segir Snorri.

En er málshöfuðunin til að koma í veg fyrir lagningu raflínanna að Bakka? 

„Ef að ríkið hefði staðið við sitt og friðlýst þessi svæði og Leirhnjúkshraun hefði verið friðlýst þegar Landsnet fór af stað með sína áætlun um línulagnir þarna þá hefði náttúrulega orðið að finna leið framhjá hrauninu sem er vel fær,“ segir Snorri.

Mynd: RÚV / RÚV

Finnst leitt hve hægt gengur að friðlýsa

Umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, segir að sér þyki miður hve hægt hafi gengið að friðlýsa ákveðin svæði í Skútustaðahreppi. 

„Viðbrögð mín eru þau að okkur hefur fundist leitt hvað það hefur gengið hægt að geta friðað, það kemur margt til. Ég held að það verði að endurskoðast, hvernig maður tekur á þeim málum," segir Sigrún.

Strandar á sveitarfélögum

Hún bendir jafnframt á að umhverfisráðherrar frá 2004 til 2008 hafi átt að afgreiða málið en slíkt hafi augljóslega ekki verið gert. Samtökin krefjast þess að friðlýsingu þessara svæða verði nú lokið en Sigrún segir að sveitarfélög nálgist friðanir yfirleitt með ákveðinni varúð.

„Við höfum fullan áhuga, bæði varðandi þessa friðun sem og margar aðrar friðlýsingar sem eru í gangi. Það tekur ótrúlega langan tíma og er flókið ferli, og strandar iðulega líka á sveitarfélögum. Ég tala nú ekki um þegar koma fleiri en eitt sveitarfélög að málum. Þá virðist þetta illmögulegt í mörgum tilfellum,“ segir Sigrún.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi