Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Landsréttur birti viðkvæmar persónuupplýsingar

06.06.2018 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Nafn manns í viðkvæmu máli var fyrir slysni birt á vef Landsréttar í mars síðastliðnum. Maðurinn hafði höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna frelsissviptingar er hann var fluttur af lögreglu af heimili sínu og á geðdeild Landspítala.

Nafn mannsins kom fyrir á einum stað í dómnum sem var birtur á vef Landsréttar. Þar var það í tæpa níu tíma en var fjarlægt þegar mistökin uppgötvuðust, að því er segir í skriflegu svari Landsréttar.

Í maí var svo birtur dómur í forræðismáli þar sem ýmsar upplýsingar um fjölskyldu komu fram, svo sem um aldur foreldra og barns, áföll sem þau hafa orðið fyrir á lífsleiðinni og vitnað til samtals barnsins við talsmann sinn um hug þess til búsetu hjá foreldrum sínum. Þá er einnig greint frá aldri og högum systkinis barnsins þó svo að dómurinn taki ekki til þess. Sá dómur var fjarlægður af vef Landsréttar eftir fyrirspurn fréttastofu.

Í skriflegu svari Björns L. Bergssonar, skrifstofustjóra Landsréttar, segir að það hafi orkað tvímælis hvort birting dómsins væri í samræmi við reglur réttarins um nafnleynd og því hafi hann verið tekinn úr birtingu. Dómurinn var á vef Landsréttar í um tíu daga.

Segir að mannleg mistök verði aldrei útilokuð

Landsréttur tók til starfa um síðustu áramót. Í svari skrifstofustjóra dómsins segir að síðan þá hafi verið unnið hörðum höndum að því að móta allt vinnulag þannig að starfsemin gangi snurðulaust fyrir sig, þar á meðal varðandi birtingu dóma. „Í þeim efnum hefur útstrikun persónugreinanlegra upplýsinga verið gefinn alveg sérstakur gaumur en greining í þeim efnum getur stundum verið mjög flókin. Síðan hefur verið brugðist við þeim vandkvæðum sem upp hafa komið, bæði með úrbótum í einstökum tilvikum og líka almennt ef tilefni hefur verið til með breytingum á verklagi með það fyrir augum að ná þeim markmiðum sem að er stefnt; Dómar séu birtir með fullnægjandi hætti, þar með talið með útstrikunum upplýsinga,“ segir í svari Björns. Mannleg mistök verði aldrei útilokuð, hins vegar sé kappkostað að bregðast við þeim og koma í veg fyrir þau.

Aðspurður að því hvort fólk geti óskað eftir því við dóminn að persónuupplýsingar um það séu fjarlægðar, segir í svari Björns að slík erindi yrðu tekin til athugunar. Það fari svo eftir hverju tilviki hver afgreiðslan yrði og þá með hliðsjón af reglum réttarins.

Venja að birta mjög ítarlegar og viðkvæmar upplýsingar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur haft alla stjórnsýslu dómstóla hér á landi til skoðunar síðan árið 2016, þar á meðal birtingu dóma. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, segir brýnt að bregðast skjótt við varðandi birtingar dóma á netinu. „Það virðist vera venja að birta mjög ítarlegar og viðkvæmar upplýsingar. Meginreglan er auðvitað sú að málsmeðferð skuli vera opinber en svo eru einstaka mál lokuð til að vernda fólkið sem í hlut á.“ Helga Vala bendir á að dómar í forsjármálum séu ekki birtir hjá héraðsdómstólum. Þegar þeim sé svo áfrýjað sé allt birt á vef Landsréttar og áður Hæstaréttar. Þrátt fyrir að nöfn og kennitölur séu ekki birtar sé oft mjög auðvelt fyrir þau sem þekkja til og vita af málaferlum að vita um hvaða fólk er fjallað í dómunum.

Mynd með færslu
Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Mynd: RÚV

Ítarlegri upplýsingar hér á landi en í nágrannalöndunum

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, tekur í sama streng. Oft séu mjög viðkvæmar upplýsingar í dómum, svo sem um líðan og vanda barna í kjölfar brots. „Oft valda þessar upplýsingar miklum sársauka hjá börnunum þegar dómar eru birtir, sem bætist ofan á beinar afleiðingar verknaðarins og álagið sem fylgir því að fara í gegnum lögreglurannsókn og málaferli.“ Hún segir mikilvægt að tryggja persónuvernd almennt en að börn séu sérstaklega viðkvæmur og berskjaldaður hópur og því mikilvægt að tryggja persónuvernd þeirra við birtingu dóma.

Mynd með færslu
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Mynd: RÚV

Dómstólasýslan og umboðsmaður barna héldu í síðustu viku fund þar sem meðal annars var fjallað um birtingu dóma er varða börn. Að sögn Salvarar var rætt um að hægt væri að fara ólíkar leiðir til að takmarka aðgang almennings að dómum, til dæmis í kynferðisbrotamálum gegn börnum. „Þar kom einnig fram að við göngum mun lengra en nágrannalöndin í birtingu viðkvæms efnis í sambærilegum dómum,“ segir Salvör.

Samræma reglur um birtingu dóma

Hver og einn dómstóll ber ábyrgð á birtingu dóma og Persónuvernd hefur haft eftirlit með því, að sögn Ólafar Finnsdóttur, framkvæmdastjóra Dómstólasýslunnar. „Samkvæmt samþykktri stefnu dómstólasýslunnar frá 15. mars síðastliðnum er unnið að samræmdum reglum um birtingu dóma eins og unnt er á öllum dómstigum og er það brýnasta atriðið nú,“ segir í skriflegu svari Ólafar við fyrirspurn fréttastofu. Starfshópurinn lýkur væntanlega störfum í lok þessa árs.

Ekki hefur verið rætt um það hvort farið verði yfir eldri dóma og þeir lagfærðir þegar reglur hafa verið samræmdar. Hún segir að hagsmunir ólíkra hópa skarist í þessum málum, þar á meðal vísindamanna og fjölmiðla sem margir hverjir vilji hafa aðgang að dómum. „Það er mjög vandasamt þegar hagsmunir ólíkra aðila skarast en að sjálfsögðu vega hagsmunir brotaþola mjög þungt í því mati.“