Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Landspítalinn fékk of mikið af hækkuninni

17.12.2017 - 12:20
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks. - Mynd: Skjáskot / RÚV
Landspítalinn fékk of mikið af þeim auknu fjármunum sem settir eru í heilbrigðiskerfið, segir oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Þingmaður Samfylkingarinnar segir fjárlagafrumvarpið minna á hægrisveltistefnu.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, deildu um fjárútlát til heilbrigðismála í Silfrinu á RÚV í morgun.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði lítið hafa breyst frá stefnu fyrri ríkisstjórnar. „Þjóðin hefur verið að kalla eftir auknum fjármunum í mennta- og heilbrigðiskerfið. Einhvers staðar þurfum við að fá peningana frá. Þannig að tveggja prósenta breyting á hægrisveltistefnufrumvarpi er engin innspýting.“

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, gagnrýndi framsetningu Ágústs: Talaðu frekar um peningana, Ágúst. Það eru átta milljarðar sem bætast við í heilbrigðiskerfinu, það eru fimm milljarðar nettó sem bætast við í menntakerfinu.“

Ágúst spurði Pál þá á móti: „Þú ert þingmaður Suðurlands, hlustaðu á mig, þú ert þingmaður Suðurlands. Ertu sáttur við að Heilbrigðisstofnun Suðurlands fær núll prósent? Ertu sáttur við það að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær núll prósent? Ert þú sátt við það að Sjúkrahúsið á Akureyri fær 0,3 prósent?“ sagði Ágúst og beindi síðustu spurningu sinni til Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, sem sagði tölur hans ekki réttar.

„Þetta er reyndar ekki rétt með þessi núll prósent en ég er ekki sáttur við það hvernig farið er með heilbrigðisstofnanir úti á landi,“ sagði Páll. „Því ég tel að hlutur Landspítalans í þessari útgjaldaaukningu til heilbrigðismála sé of mikill. Því að Landspítalinn er ekki heilbrigðiskerfið á Íslandi.“

Ágúst hafnaði umvöndunum stjórnarþingmannanna um breytingar á fjárlögum og sagði: „Þetta er fullkomlega rétt.“

Bjarkey og Ágúst deildu áfram um tekjuöflun og útgjöld, meðal annars gjaldtöku af sjávarútvegi. „Okkar sjónarmið fengju hvað, 29 prósenta fylgi sirka. Við vorum einu flokkarnir sem virkilega töluðum um það. Því miður er staðan svoleiðis,“ sagði Bjarkey. Ágúst Ólafur var ekki sáttur við yfirlýsinguna: „Þið kusuð að starfa með þeim. Þið gátuð starfað með okkur,“ og vísaði þar til hugsanlegra stjórnarmyndunarviðræðna Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. Bjarkey svaraði því til að lítill samhljómur væri með skattaumræðu Viðreisnar og hinna flokkanna. Hún sagði að Samfylkingin hefði getað orðið hluti af núverandi ríkisstjórn. „Þið gátuð líka starfað með okkur með þeim þá hefði væntanlega verið meiri möguleikar til að takast verulega á við Sjálfstæðisflokkinn.“