Landsnet búið að fá öll framkvæmdaleyfin

11.11.2016 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Þingeyjarsveit hefur gefið út nýtt framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, en aðeins tvær vikur er liðnar frá því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið gaf út síðastliðið vor.

Bókun umhverfis- og skipulagsnefndar um málið er mun ítarlegri nú en síðast, farið er betur yfir rök sveitarfélagsins fyrir veitingu leyfisins en skortur á þeim var ein helst ástæða þess að fyrra framkvæmdaleyfið var gert ógilt.

Skortur á rökum var einnig á meðal þess sem varð til þess að framkvæmdaleyfi sem Skútustaðahreppur gaf út fyrir Kröflulínu 4 var gert ógilt. Líkt og nú, liðu aðeins tvær vikur frá úrskurðinum þar til Skútustaðahreppur gaf út nýtt framkvæmdaleyfi. Þegar framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar var gert ógilt fyrir Þeistareykjalínu sagði oddviti Þingeyjarsveitar að farið yrði að fordæmi Skútustaðahrepps.

Nú eru framkvæmdaleyfi, sem Landsnet hefur, í gildi fyrir alla hluta Þeistareykja- og Kröflulínu, sem eiga að flytja orku að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort Landvernd hyggist kæra útgáfu nýja leyfisins, en kærur náttúruverndarsamtakanna urðu til þess að fyrri leyfi voru gerð ógild.
 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi