Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Landsliðsbúningurinn - ekki aftur slæma hönnun

15.03.2018 - 10:14
epa05384306 Aron Gunnarsson (C) of Iceland and teammates celebrate after the final whistle of the UEFA EURO 2016 group F preliminary round match between Iceland and Austria at Stade de France in Saint-Denis, France, 22 June 2016. Iceland won 2-1.
 Mynd: EPA
Landsliðsbúningurinn fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu verður frumsýndur eftir hádegi í dag. Linda Björg Árnadóttir lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands segist vona að það verði einhver hugmynd að baki hönnuninni sem verði útfærð vel.

Sú hafi ekki verið raunin með síðasta landsliðsbúning en hann líti út fyrir að einhver hafi verið með fánalímband og ákveðið að líma það langsum en ekki þversum yfir búninginn. 

„Bara ef það er hugmynd þá finnst mér það ansi gott. Hvort að hún er vel heppnuð eða ekki er svo annað mál. Mér fannst til dæmis búningurinn síðast vera svona algerlega engin hugmynd. Ókei, einhver var með límband með fánalitunum. Og það var hérna, ókei, höfum þetta svona lóðrétt í staðinn fyrir hugsanlega lárétt. Og það er svona tveggja sekúndna hugmynd. Ef að hönnunarþátturinn er vel gerður þá er ég alveg sátt að einhverju leyti. Svo er auðvitað voða gaman ef hann er skemmtilegur“, sagði Linda Björg Árnadóttir lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands í Morgunútvarpi Rásar 2.  

Á Facebooksíðu KSÍ má sjá myndband um þróun landsliðsbúningsins frá 1946. Linda Björg segir að þar megi meðal annars sjá hver þróunin hefur verið í textil, því hér áður hafi ekki verið til teygjanleg jersey efni í buxur og því hafi þurft að hafa þær víðar. Þá megi sjá í gegnum hönnunina á búningnum, sem og með þróun tískunnar almennt, hvenær sé kreppa eða þensla í þjóðfélaginu. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV