Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Landsigið er hætt í Krýsuvík

27.08.2012 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Land er hætt að síga í Krýsuvík, í bili að minnsta kosti. Sigrún Hreinsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, segir að nú sé beðið eftir því að sjá hvað gerist, hvort landið hafi náð jafnvægi eða fari að rísa aftur. Ekki sé vitað nákvæmlega hvað sé að gerast undir jarðskorpunni í Krýsuvík.

Land hefur skipst á að rísa og síga í Krýsuvík frá 2009. Landið byrjaði að rísa árið 2009 en seig aftur niður á byrjunarreitinn. Það byrjaði svo aftur að rísa 2010 og reis þá mun meira en árið 2009. Þegar landið seig aftur í árslok 2011 og þá seig það jafnmikið og árið 2009 og jafnaði sig því aldrei alveg. Land reis svo aftur í vor en hætti um miðjan maí. 

Ekki er enn vitað hvað er að gerast í Krýsuvík. „Okkur finnst þetta mjög merkileg atburðarás en við höfum engin svör ennþá. Við bíðum bara spennt eftir því að sjá hvort þetta jafnar sig eða hvort landið rís aftur en landrisið er allavega búið í bili," segir Sigrún Hreinsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Ísland.