Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Landsdómsmálið dregið til baka?

15.12.2011 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og mögulega fleiri flokka skoða nú að leggja fram á Alþingi tillögu eða áskorun þess efnis að saksóknari Alþingis láti málið gegn Geir Haarde, fyrir Landsdómi, niður falla.

 Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í dag leitað stuðnings við málið en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur það valdið miklum titringi á þinginu. Málið var rætt í þingflokkum Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins í dag án þess að niðurstaða fengist. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður málið rætt áfram í þingflokkum stjórnarflokkanna klukkan sjö í kvöld. Lögfræðingar, sem fréttastofa hefur rætt við, telja að lögformlega geti slík tillaga gengið upp þar sem Alþingi sé ákærandi í málinu og geti því jafnframt ákveðið að falla frá málshöfðun á grundvelli laga um meðferð sakamála. Þingmenn sem fréttastofa hefur rætt við telja að meirihluti sé fyrir tillögunni á Alþingi.