Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landsbjörg: Guðmundur Örn hættur

31.10.2012 - 00:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hefur óskað eftir leyfi frá störfum vegna Youtube-myndbands þar sem hann er borinn alvarlegum sökum, en DV fjallar um málið í dag.

Samkvæmt DV er Guðmundur Örn sakaður um að hafa misnotað stöðu sína hjá Slysavarfélaginu og stundað peningaþvætti og gjaldeyrisbrask.

 Á myndbandinu sé hljóðupptaka þar sem Guðmundur Örn ræði um flutninga á tugum milljóna króna og hagnað hans sjálfs, og viðmælandans, af þessum fjármagnsflutningi.

DV segir myndbandið gert þannig að menn eigi að gruna að Slysavarnarfélagið Landsbjörg tengist málinu, meðal annars við kaup á flugeldum frá Kína.

Blaðið hefur eftir Guðmundi Erni að þetta sé fráleitt, hann hafi ekki misnotað aðstöðu sína hjá Landsbjörg, hvorki við peningaþvætti né annað.

 Yfirlýsing barst frá Landsbjörg um þetta mál í gærkvöld:

Framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Guðmundur Örn Jóhannsson, hefur óskað eftir leyfi frá störfum vegna blaðagreinar sem væntanleg er í DV á morgun, miðvikudaginn 31. október. Umfjöllunarefni hennar eru viðskipti sem hann tók þátt í tveimur árum áður en hann hóf störf hjá félaginu.

Guðmundur tók þessa ákvörðun með hagsmuni Slysavarnafélagsins Landsbjargar að leiðarljósi því aldrei má leika vafi á trúverðugleika samtakanna. Það er ósk Guðmundar og stjórnar SL að þetta mál hafi hvorki áhrif á starfsemi félagsins né mikilvæga fjáröflun björgunarsveita um land allt.