Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Landsbankinn krefur PWC um 100 milljarða

26.12.2012 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Slitastjórn Landsbanka Íslands krefur PriceWaterhouse Coopers um tæplega 100 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem hún telur fyrirtækið hafa valdið Landsbankanum fyrir hrun.

Í stefnu slitastjórnar gegn PriceWaterhouseCoopers, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að stjórnin telur að endurskoðendur bankans hafi valdið tjóni með athöfnum sínum, athafnaleysi og rangri ráðgjöf.

Félagið hafi ekki endurskoðað reikninga bankans í samræmi við reglur og ekki tilkynnt um alvarleg brot bankans til bankaráðs, hluthafafundar og Fjármálaeftirlitsins eins og því bar að gera.

Þá segir að PriceWaterhouse Coopers hafi ekki getið um stórfelldar lánveitingar bankans til Björgólfs Thors Björgólfssonar eða félaga sem tengdust honum í ársreikningum 2007 og 2008 og aðeins getið um hluta af skuldbindingum Björgólfs Guðmundssonar bankaráðsformanns og annars aðaleiganda bankans.
Bankinn hafi lánað aðaleigendum sínum, Björgólfsfeðgum og félögum sem þeim tengdust, verulegar fjárhæðir og langt umfram þau 25% af eigin fé bankans sem heimilt sé að lána tengdum aðilum.

Í stefnunni segir að eigið fé bankans hafi frá miðju ári 2008 verið undir því lágmarki sem bundið er í lög og ef endurskoðendur hefðu tilkynnt það til Fjármálaeftirlitsins, hefði bankinn misst starfsleyfið eða stjórnendum verið settar mjög þröngar skorður.

Ennfremur segir að eftir að endurskoðendur hafi áritað hálfsársuppgjör sumarið 2008 athugasemdalaust, hafi stórar fjárhæðir runnið úr bankanum til tengdra aðila þótt lánveitingar til þeirra hafi verið yfir lögmætum mörkum. Þessi lán verði ekki endurheimt nema að hluta.

Í stefnunni er vakin athygli á því að PriceWaterhouse Coopers hefur ítrekað neitað að afhenda slitastjórn Landsbankans gögn sem lúta að endurskoðun ársreikninga bankans þrátt fyrir dóm þar um frá Hæstarétti. Fyrir vikið dregur slitastjórn þá ályktun að PriceWaterhouse Coopers hafi vanrækt skyldur sínar verulega.

PriceWaterhouse Coopers hefur frest fram í miðjan janúar til að skila inn greinargerð vegna stefnunnar.