Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Landnám líklega 100-200 árum fyrr

29.09.2013 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Skýrslur og gögn fornleifarannsókna hér á landi sýna að landnám hófst 100 til 200 árum fyrr en talið hefur verið. Þetta fullyrðir Páll Theodórsson eðlisfræðingur við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Páll hefur síðustu ár unnið úr gögnum fornleifafræðinga hér á landi og kynnti niðurstöður sínar í háskólafyrirlestri á föstudag. „Helsti vitnisburðurinn, sem ég er reyndar nýbúinn að grafa upp, er vinna Sigurðar Þórarinssonar í Þjórsárdal 1939. Þá tók hann þátt í norræna fornleifauppgreftrinum og lagði grundvöll að öskulagatímabilinu. Niðurstöður hans sýna alveg ótvírætt að þar hefst búseta svona tíu árum eftir að landnámslagið fellur, ekki seinna. Þetta er nákvæmasta tímasetningin, sem við höfum á landnámi,“ segir Páll. 

Hann segir landnám hafið í Þjórsárdal á sama tíma og Ingólfur Arnarsson er nýsestur að í Reykjavík. Páll spyr sig hvers vegna þeir settust að í þessari afskekktu sveit upp í þjórsárdal þegar allt suðurland, sem var kannski mjög blómlegt á þessum tíma, hafi verið óbyggt. „Það bara fær ekki staðist. Ég tel að það sé óyggjandi að landnám hlýtur að vera eldra, ég myndi segja 100 til 200 árum eldra. Við höfum líka mannvistarleifar sem sýna þetta beint og um það bil hversu löngu fyrir 870. Og þar nefni ég eitt atriði, óvenjulegar mannvistarleifar, en það er sót sem er í reyk frá landnámsbæjum. Þetta eru örlítil viðarkolakorn og þau berast með reyknum og síga til jarðar nálægt bænum og leggjast þar í jarðveginn og grafast þar. Áður en maðurinn kom til sögunnar var enginn reykur og ekkert sót. En svo þegar maðurinn kemur þá eru þarna í jarðveginum korn einhversstaðar undir landnámslaginu.“

Það er hægt að einangra þessi korn og telja þau og finna út á hvaða dýpi þessi sótkorn koma fyrst fram í afstöðu við landnámslagið. „Þetta er ný aðferð og við höfum bara þrjú slík snið. Í Papey er komin byggð um 845, í Mosfellssveit um 850 og í Aðalstræti í Reykjavík um 720. Þetta er bara byrjunin. Þessi aðferð getur á næstu árum fært okkur fullkomna mynd af því hvenær og hvernig landið byggðist,“ segir Páll.