Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Landlæknir ekki hrifinn af frumvarpi Silju

13.03.2018 - 21:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgir Jakobsson, landlæknir, fagnar því að Alþingi ræði breytingar á lögum varðandi umskurð drengja en segir embættið eindregið á móti því að slík aðgerð falli undir hegningarlög. Hann er jafnframt ósammála flutningsmönnum þegar þeir leggja að jöfnu „umskurð“ á stúlkubörnum og umskurð á drengjum.

Þetta kemur fram í umsögn Birgis við frumvarpið en hann verður aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra í byrjun næsta mánaðar. 

Frumvarpið hefur mætt nokkurri andstöðu, biskup Íslands hefur gagnrýnt það og það hefur kaþólski biskupinn á Íslandi einnig gert. Þá hafa rabbínar gyðinga í Evrópu og Skandinavíu brugðist hart við frumvarpinu en þeir telja að með því sé vegið að trú þeirra. Aftur á móti hafa bæði hjúkrunarfræðingar og læknar lýst yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið.

Birgir segir það álit landlæknis að trúarlegar og menningarlegar hliðar á þessu máli séu svo ríkar, að umskurður á forhúð drengja „muni verða framkvæmdur um ófyrirsjáanlega framtíð óháð því hvaða afstöðu heilbrigðiskerfið og samfélagið að öðru leyti mun hafa til þess að leyfa þessa aðgerð.“ Það sé því nauðsynlegt að löggjöf á þessu sviði sé gerð þannig úr garði að umskurður á drengjum valdi ekki barninu skaða. 

Birgir óttast að umrædd þingsályktunartillaga leiði til þess að þessar aðgerðir verði gerðar við aðstæður sem ekki tryggja öryggi þeirra barna sem hér um ræði. Hann leggur því til að horft verði til Svíþjóðar þar sem sett hafi verið skýr regluverk um það hvenær, við hvaða aðstæður og af hverjum þessar aðgerðir eru gerðar. Brot á þeim reglum varði við hegningarlög.