Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Landakortið sem tónverk

Mynd: GPS Reykjavík / GPS Reykjavík

Landakortið sem tónverk

12.06.2018 - 10:28

Höfundar

Persónlegi GPS-staðsetningarbúnaðurinn sem er kominn í öll helstu snjalltæki opnar ýmsa möguleika í listsköpun. Bræðurnir Halldór og Úlfur Eldjárn opnuðu á dögunum, sem hluta af Listahátíð í Reykjavík, nýtt verk sem nefnist GPS Reykjavík.

Verkið er óður til miðborgarinnar í fortíð, nútíð og framtíð. Tónlistin er tengd við ákveðin GPS-hnit í miðbænum þannig að maður heyrir hana breytast á rölti sínu um bæinn.

Hver og einn velur sér þannig leið í gegnum verkið og upplifir það og borgina á sinn hátt. Tónverkið er eins og falið landslag, ósýnileg borg í borginni, sem bíður þess að vera könnuð.

Hliðstæður veruleiki ofan á kortinu

„Hugmyndin var að þú værir með kort af Reykjavík og verkið lægi eins og annar hliðstæður veruleiki ofan á kortinu. Eina leiðin til að upplifa allt verkið væri að þræða sig í gegnum kortið,” segir Halldór og bætir síðar við: „Það hefur verið mjög skemmtilegt ferli að finna út úr því hvernig maður breytir landakorti í tónverk.“

Hægt er að nálgast verkið á rvkgps.com eða með því að hlaða niður appi. „Appið les staðsetninguna þína úr GPS-tækinu þínu og byrjar verkið fyrir þig eins og það hljómar á þeirri staðsetningu.“

Nostalgísk stemning

Ný hljóðfæri koma inn og framvinda verksins þróast þegar áheyrendur ganga um miðbæinn. Áheyrandinn stýrir framgangi verksins með hreyfingum sínum í borgarlandslaginu.

„Þetta eru mjög mikið akústísk hljóðfæri, strengjahljóðfæri og slagverkshljóðfæri. [Úlfur] semur verkið í mörgum litlum einingum sem geta svo púslast saman á ótal mismunandi vegu.“

„Stemningin er dálítið nostalgísk. Innan um allar þessar nýbyggingar og rosalegu breytingar sem hafa verið í gangi í borginni þá er þetta kannski leið til að grafa sig aftur til baka í sjarmann, í það sem áður var þarna,“ segir Halldór.