Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Land rís og sígur í Krýsuvík

22.05.2012 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Land hefur risið og sigið á víxl í Krýsuvík frá 2009. Það reis um átta sentimetra í fyrra og sígur nú í þrepum. Jarðvísindamenn segja þessa þróun afar óvenjulega.

Í ársbyrjun 2009 fór land að rísa á Krýsuvíkursvæðinu og hélt sú þróun áfram fram í september að svæðið tók að síga aftur. Í maí 2010 byrjaði landris aftur og hélt áfram fram í árslok 2011. Landið reis um samtals átta sentimetra í fyrra en virðist vera farið að síga í þrepum. Sigrún Hreinsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, segir hugsanlegt að kvika sé að koma upp í jarðskorpuna en svo þurfi ekki að vera. Þetta geti líka verið aukinn gasþrýstingur frá jarðhitakerfinu. Hún lýsir þessu eins og blöðru að þenjast út á fjögurra kílómetra dýpi. 

„Þetta gæti náttúrulega verið fyrirboði, fyrstu vísbendingar um að við séum að fá eldgosavirkni á Reykjanes aftur sem hefur ekki verið undanfarin þúsund ár," segir Sigrún Hreinsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.

Vísindamenn fylgjast vel með því hvernig landið í Krýsuvík er að breytast. Pantaðar hafa verið radarmyndir frá gervitunglum og á að bera þær saman við eldri myndir til að fá betri vitneskju um þróunina. Sigrún segir að allar breytingar geti gefið vísbendingar um það hvað sé eiginlega að gerast.

„Núna erum við að fá landris og svo fáum við landsig og það verður ekkert eldgos þannig að við vitum ekki nákvæmlega hvað veldur. Þetta er mjög spennandi," segir Sigrún og veltir upp spurningum eins og hvort þetta sé að gerast víðar, hvers vegna þetta sé að gerast.

„Við erum með í fyrsta skipti núna með samfelldar mælingar á Krýsuvíkursvæðinu þannig að það er hugsanlegt að þetta hafi gerst áður en við höfum bara ekki haft mælitæknina til að sjá þetta," segir hún. 

Atburðarásin í Krýsuvík hefur ekki sést áður í heiminum nema hugsanlega í Afar í Afríku. Vísbendingar eru um að eldfjöll og jarðhitakerfi þar hegði sér á sama hátt og í Krýsuvík en ekki eru mörg önnur dæmi um þetta í heiminum. Það eru því ekki bara vísindamenn á Íslandi sem fylgjast spenntir með þróuninni hér.