Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lánareglur Seðlabankans brotnar

09.03.2013 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Ætla má að þáverandi Seðlabankastjóri og forsætisráðherra hafi verið meðvitaðir um stöðu Kaupþings í byrjun október 2008 og að gríðarleg áhætta hafi verið fylgjandi ákvörðun um að lána bankanum 500 milljónir evra án fullnægjandi trygginga.

Þetta kemur fram í skýrslu fjárlaganefndar til Alþingis um lánið sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi hf. 6. október 2008. Kaupþing var yfirtekið af FME þremur dögum síðar. Skýrslan var lögð fram á Alþingi í morgun.

Kemur fram í skýrslunni að með láninu hafi stærsta hluta gjaldeyrisvaraforða Íslands á þeim tíma verið ráðstafað til Kaupþings. Það liggur fyrir að þann 6. október 2008 lánaði Seðlabankinn Kaupþingi hf. 500 milljónir evra til fjögurra daga og við þá lánveitingu hafi lánareglur Seðlabankans verið brotnar.

Helmingur lánsins verið endurgreiddur

500 milljónir evra eru um 77,5 milljarðar króna og var lánað gegn veði í danska FIH bankanum. Um helmingur lánsins hefur verið endurgreiddur en óvíst er hverjar endanlegar heimtur verða. Þáverandi seðlabankastjóri og forsætisráðherra munu hafa haft samráð í gegnum síma þennan dag um lánið og er upptaka til af því. Í skýrslunni kemur fram að ætla megi að þeir hafi báðir verið vel meðvitaðir um stöðu Kaupþings á þessum tíma og að gríðarleg áhætta væri því fylgjandi ákvörðun um að lána bankanum slíka upphæð án fullnægjandi trygginga.