Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lánaði skuldugu bæjarfélagi 750 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúðalánasjóður lánaði húsnæðissamvinnufélagi 750 milljónir króna með milligöngu Álftanesbæjar. Lánið var veitt þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi verið stórskuldugt og í slæmri stöðu.

Íbúðalánasjóður tapaði meira á lánum til byggingaverktaka, leigufélaga og skyldrar starfsemi en á lánum til einstaklinga. Það kemur kannski ekki á óvart að meiri vanskil hafi fylgt þessum lánum þegar rýnt er í skilmála og það hverjir fengu lán. Til dæmis var hætt að krefjast bankaábyrgða frá 2006 til átta af byggingaverktökum vegna ótta sjóðsins við að missa viðskipti yfir til bankanna. Sjóðurinn lánaði svo til verkefna sem stjórnendur hans höfðu litla trú á, allt frá upphafi. 

Lán til húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna fékk sérstaka umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Sveitarfélagið Álftanes gerði í lok árs 2006 samkomulag við Búmenn um uppbyggingu öldrunarþjónustu í nýjum miðbæ bæjarfélagsins. Lítið fréttist af samkomulaginu fyrr en eftir fall íslensku bankanna en í nóvember 2008 hafnaði stjórn Íbúðalánasjóðs beiðni Búmanna um 750 milljóna króna lán vegna leiguíbúða og þjónustumiðstöðvar. 

Á þessum tíma var slæm fjárhagsstaða Álftaness mörgum ljós en 2008 tvöfölduðust skuldir og skuldbindingar bæjarins og námu fjórföldum árstekjum. Staða Álftaness var verri en hjá nokkru sveitarfélagi á Íslandi. Bæjarstjórn Áltaness ákvað að láta ekki deigan síga þrátt fyrir höfnunina og samþykkti að fela bæjarstjóra að kynna markmið sveitarfélagsins um uppbygginguna fyrir stjórnendum Íbúðalánasjóðs. Fáum vikum síðar eða í janúar 2009 var fyrri ákvörðun Íbúðalánasjóðs snúið og Búmenn fengu 750 milljóna króna lán.

Virðast ekki hafa kynnt sér fjárhag Álftaness

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að ekkert standi í fundargerð stjórnar Íbúðalánasjóðs um hvort hún hafi kynnt sér fjárhag sveitarfélagsins á nokkurn hátt áður en ákveðið var að veita fé til verkefnisins. Enn fremur segir að fátt hefði átt að vera því til fyrirstöðu að stjórn sjóðsins aflaði sér upplýsinganna. Krefjast hefði átt gagna um skuldir og skuldbindingar. Erfitt sé að réttlæta afgreiðslu stjórnar sjóðsins á láninu til Búmanna.

Enn meiri athygli vekur ef til vill að um einum mánuði eftir að fjárhaldsstjórn hafði tekið við rekstri Álftaness og fjárhagsvandi þess átti að vera öllum ljós, endurnýjaði stjórn Íbúðalánasjóðs lánsloforðið til Búmanna. Það gerðist í mars 2010. Þá höfðu birst margar fréttir í fjölmiðlum um slæma fjárhagsstöðu hreppsins og fyrir lá að leigutakinn, Álftanes, væri ekki fær um að greiða Búmönnum leiguna.

Ekki náðist í Hákon Hákonarson, sem gegndi formennsku í stjórn Íbúðalánasjóðs, á þeim tíma sem lánið til Búmanna var samþykkt.  
Fréttastofa hefur frá því á þriðjudag ítrekað reynt að fá viðtal við marga sem komu að stjórnun sjóðsins á árunum 2003 til fimm en rannsóknarnefndin telur að flest mistök hafi verið gerð í rekstrinum á þeim tíma. Árni Magnússon, þáverandi félagsmálaráðherra, neitar viðtali í tölvupósti í dag og segist ekki hafa í hyggju að tjá sig frekar um málefni Íbúðalánasjóðs. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri sjóðsins á sama tíma, segist þurfa meiri tíma til að fara yfir skýrsluna áður en hann tjái sig. Gunnar S. Björnsson, formaður stjórnar sjóðsins, hefur svo ekki svarað símtölum.