Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lamdi og ofsótti konu - Fékk 3 mánaða dóm

02.09.2015 - 12:00
Tafir í rannsókn lögreglu urðu til þess að refsing ofbeldismanns sem hrellt hefur Ásdísi Viðarsdóttur undanfarin ár, var milduð. Hann hóf ofsóknir gegn henni stuttu síðar. Fyrir líkamsárás, ærumeiðingar, brot á barnaverndarlögum og 868 brot gegn nálgunarbanni fékk maðurinn 3 mánaða fangelsisdóm.

Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld.

Tvö áru eru síðan Ásdís tók ákvörðun um að flytja með tvö börn sín frá Reykjavík til Þórshafnar, til að þess að reyna að losna undan hótunum og áreiti manns sem hún hafði slitið sambandi við nokkru fyrr. Í það tæpa ár sem samband þeirra stóð, beitti maðurinn Ásdísi margoft alvarlegu ofbeldi.

Bæjarbúar varaðir við

Hótanir mannsins og ónæði minnkuðu ekki við flutninga hennar norður. Maðurinn hélt uppi linnulausum hótunum og setti sig jafnframt í samband við fjölda bæjarbúa, með símtölum og í gegnum tölvusamskipti. Sveitarstjórinn á staðnum sá sérstaka ástæðu til að senda bréf til bæjarbúa og vara við manninum. Sett var nálgunarbann á manninn en það hafði lítil áhrif, jafnvel þótt Ásdís kærði og tilkynnti jafnharðan hátt í eitt þúsund brot hans á nálgunarbanninu þá sex mánuði sem það var í gildi.  

Ekki einsdæmi

Saga Ásdísar vakti hörð viðbrögð og gagnrýni á meðferð yfirvalda á slíkum málum, enda lýstu meðal annars lögmenn og talsmenn Kvennaathvarfsins því yfir í kjölfar viðtalsins, að saga hennar væri langt í frá einsdæmi. Kastljós greindi ennfremur frá því að Ásdís væri ekki alls fyrsta konan sem orðið hefði fyrir ofbeldi, hótunum og ónæði af hálfu þessa sama manns. 

8 mánaða fangelsi

Erlendur Eysteinsson fékk loks átta mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm í fyrrasumar, vegna 868 brota á nálgunarbanni gegn Ásdísi. Hluti líkamsárásakæra hennar á hendur honum höfðu þá fyrnst í meðförum lögreglu, en rannsókn annarra brota var enn ólokið.

Mistök í ákæru

Hæstiréttur ógilti hins vegar dóminn síðastliðinn vetur, þar sem lögregla hafði gert mistök við gerð ákæru gegn Erlendi. Aftur fór málið fyrir dóm nú í vor. Þá höfðu bæst við ákærur vegna líkamsárásar Erlends gegn Ásdísi, brots gegn barnaverndarlögum og blygðunarsemisbrots vegna dreifingar mannsins á myndbandi og myndum af Ásdísi, auk hótana og hátt í þúsund brota á nálgunarbanni, sem í annað sinn fór nú fyrir dóm.

Fleiri brot - minni refsing

Dómur féll í júlíbyrjun og niðurstaðan fyllir rúmlega 80 blaðsíður; upptalningu hundruða hótana Erlends, lýsingar á hrottafengnu ofbeldi hans í garð Ásdísar, í viðurvist ungra barna hennar og vitnisburðum sem styðja nær einróma framburð hennar og ákæru lögreglu. Þrátt fyrir alla þessa viðbót, var niðustaðan sú að Erlendur skyldi sæta 3 mánaða fangelsi, enda voru 12 af 15 mánaða fangelsisdómi, skilorðsbundnir.

Græddi á töfum

Dómari taldi að þar sem Erlendur hefði ekki brotið gegn Ásdísi í að verða ár, mætti milda refsinguna auk þess sem lögregla hefði dregið úr hófi fram að koma máli hans fyrir dóm, vegna tafa í rannsóknum þeirra. Sú fullyrðing dómarans að Erlendur hefði látið af hótunum og ónæði í garð Ásdísar síðastliðið ár, segir þó ekkert um hegðun hans gagnvart öðru fólki á sama tíma. Fyrir ári fékk dóttir Ásdísar nálgunarbann á Erlend, meðal annars vegna þess sem hún taldi vera dulbúnar hótanir í garð barnabarns Ásdísar á leikskólaaldri.

Byrjaði aftur

Lögmaður Erlends áfrýjaði dómi héraðsdóms í byrjun júlí en síðan þá hefur gengið á með nær látlausu ónæði og hótunum. Að sögn Ásdísar höfðu henni borist hátt í þrjú hundruð skilaboða, tölvupósta og símtala frá manninum á þeim rúma mánuði sem leið frá því dómi mannsins var áfrýjað. Auk þess hafi fjöldi vina og fjölskyldumeðlima hennar orðið fyrir ónæði mannsins og hótunum á þessum tíma. Ásdís fór strax í byrjun júlí til lögreglu og keyrði með símann sinn til Akureyrar til að lögregla gæti tekið af honum afrit og óskaði eftir nálgunarbanni.

Gleymdu nálgunarbanninu

Ekkert gerðist í málinu af hálfu lögreglu þar til nú um miðjan ágúst, að lögregla fór fram á nálgunarbann fyrir dómi. Kröfunni var hins vegar vísað frá dómi vegna mistaka lögreglu sem hafði gleymt málinu og lagt það fram of seint. Hæstiréttur vísaði svo kröfunni um nálgunarbann aftur heim í hérað og þar fékkst loks nálgunarbann í þessari viku.

Mistökin við nálgunarbannið eru fjarri því að vera þau einu sem lögreglan hefur gert og skaðað hafa mál Ásdísar. Handvömm lögreglu og seinagangur hafði áður orðið til þess að dómur yfir Erlendi var ómerktur síðastliðið haust og varð til þess að refsing hans síðan milduð. Mistök urðu þess einnig valdandi að ofbeldisbrot Erlendar gegn Ásdísi fyrndust í rannsókn lögreglu, og fara því aldrei fyrir dóm. Í þrjú ár hefur Ásdís því þurft að safna saman upplýsingum um nokkur þúsund tilvik, tilkynna þau til lögreglu, kæra þau og ýta á eftir því að þau séu rannsökuð - oftar en ekki án árangurs. Hún segir fátt benda til þess að ofsóknunum linni.

Túlkað þröngt

Sú staðreynd að Ásdís og Kamilla Modsilliefska sem við fjölluðum um í gær, hafi báðir þurft að flýja heimili sín; Ásdís með því að flytjast úr Reykjavík til Þórshafnar og Kamilla af heimili sínu í Kvennaathvarfið, er langt í frá einsdæmi. Í hvorugu tilfellinu bjuggu ofbeldismennirnir á heimilum þeirra. Að sögn talskonu Kvennaathvarfsins dvöldu eitt hundrað konur þar í fyrra. Fjórðungur þeirra hafði yfirgefið heimili sitt og barna sinna, vegna ofbeldismanns sem bjó ekki á heimilinu. Í slíkum tilfellum gagnast því heimild lögreglu til að fjarlægja brotamann af heimili ekki. Oft getur gengið illa að fá nálgunarbann í slíkum tilfellum, skilyrðin og heimildir til beitingar þess eru túlkuð þröngt. Í lögum um nálgunarbann segir að heimilt sé að beita því ef rökstuddur grunur sé um refisvert brot eða að viðkomandi hafi raskað á annan hátt friði þess sem óskar eftir banninu, eða hætta sé á því slíkt gerist.

Réttargæslumenn brotaþola í slíkum málum sem Kastljós hefur rætt við segja ofuráherslu á að nálgunarbann sé svo íþyngjandi fyrir þann sem þarf að sæta því, á kostnað réttinda þeirra sem brotið er á hjá lögreglu og dómstólum. Nálgunarbann felist ekki í öðru en því að viðkomandi sé bannað að nálgast, áreita eða ógna, einhverri tiltekinni manneskju, eða vera í næsta nágrenni við heimili hennar eða vinnustað.

Þegar nálgunarbann fæst hjá dómstólum, hefur það í mörgum tilfellum tilætluð áhrif og verður til þess að veita þá vernd sem til er ætlast. Hins vegar sýna sögur Ásdísar og Kamilu, að brotum á nálgunarbanni sé illa og jafnvel ekki fylgt eftir og sé því nær gagnslaust. Aukin áhersla lögreglu á þennan málaflokk, til dæmis á Suðurnesjum og nú í Reykjavík, hefur reynst skref í rétta átt að mati margra, en dæmin sýna að enn sé langt í land.