Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Lágvöruverðsverslanir hækka mest

24.06.2013 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um allt að 4,9% frá því í janúar, þrátt fyrir að verðbólgan á þessu tímabili hafi aðeins verið tæp 2%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþýðusambandinu. Vörukarfan hefur hækkað meira hjá lágvöruverðsverslunum en öðrum verslunum.

Mest hefur karfan hjá Nettó, Bónus og Iceland. Hjá Nettó hækkaði karfan mest, eða um 4,9%. Í Bónus og Iceland hækkaði karfan um 4,2% og í Víði um 1,9%. 

Mesta lækkunin var aftur á móti hjá Hagkaupum. Þar var verð lækkað í nánast öllum vöruflokkum og nam lækkunin 2,3%. Næstmest lækkun var hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, 1,1% og þar á eftir kom Kaskó með 0,6% lækkun.

Töluverðar verðhækkanir áttu sér stað í öllum vöruflokkum að undanskildum drykkjarvörum. Sá flokkur lækkaði í verði hjá 13 verslunum af 15. Vöruflokkurinn brauð og kornvörur hækkaði hjá 11 verslunum af 15, mest hjá Víði og Samkaupum-Strax. Kjötvörur hækkuðu hjá 13 verslunum af 15, en lækkuðu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, Samkaupum-Strax og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga.

Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, til dæmis brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis.