Lagning ljósleiðara gegn reglum ESA?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarfélög og ríki þurfa að fara gætilega þegar farið er í lagningu ljósleiðara í dreifbýli. Framkvæmdastjóri Mílu segir að fyrirtækið hafi hætt við að taka að sér verkefni, þar sem fjárveiting hins opinbera stóðst ekki reglur ESA um ríkisaðstoð.

Lagning ljósleiðara í dreifbýli er afar dýr framkvæmd en er forsenda þess að öll heimili á Íslandi verði tengd við háhraðainternettengingu árið 2020, líkt og stjórnvöld stefna að. Sum sveitarfélög hafa brugðið á það ráð að ráðast í framkvæmdirnar sjálf, líkt og Eyja- og Miklaholtshreppur. Míla var sveitarfélaginu til aðstoðar, en vildi ekki sjá um framkvæmdina. 

„Við höfum ekki viljað gera þetta að okkar framkvæmd, út af því að það er tiltölulega erfitt og flókið regluverk sem menn þurfa að fara í gegnum til að gera þetta löglega og rétt. Þar gilda evrópskar reglur. Ég held að ekkert sveitarfélag hafi ennþá, treyst sér til að fara í gegnum þær,“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu. Hann segist hræddur um að sveitarfélög sem hafi, eða séu að leggja ljósleiðara í samstarfi við einkafyrirtæki, hafi brotið gegn reglum ESA: „Strangt til tekið held ég að það sé svolítið um það já, að ákveðin sveitarfélög hafi samið við einkafyrirtæki um framkvæmd þar sem að opinber styrkur er langt yfir leyfilegum mörkum.“

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi