Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Lágir gosstrókar koma úr sprungunni

21.03.2010 - 04:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðvísindamenn sem fóru með þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, yfir gossvæðið segja gosið norðarlega í Fimmvörðuhálsi, milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Gossprungan virðist vera 1 km að lengd og liggur í norðaustur-suðvestur. Um tugur lágra gosstróka koma úr sprungunni og lítil aska sjáanleg. Þyrlan er lent í Vestmannaeyjum og bíður þar átekta. Flugvélin TF-Sif er á leið á staðinn, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Þar sem eldgosið í Eyjafjallajökli kemur upp í Fimmvörðuháls er ekki talin jafn mikil hætta á flóðum. Gosið kemur því ekki upp undir íshellu jökulsins eins og er. Gunnar Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir þó að vaxandi hætta sé á því að gossprunga rifni í átt að jöklinum en það myndi auka líkur á gosi. Fyrstu viðbrögð jarðvísindamanna eru að þetta sé óvenjuleg eldvirkni með tilliti til þeirra jarðskjálfta sem verið hafi í námunda við jökulinn.

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyrir er fyrir ofan byggðina á Skógum og segir að gosið í Eyjafjallajökli sé beint upp af Skógarfossi. Bjarminn hafi aukist. Allir séu búnir að rýma í Skógum og sé allt í góðu lagi þar.

Steinunn Jakobsdóttir, jarðfræðingur á Veðurstofunni, segir að gosið sé nálgægt Fimmvörðuhálsi, en þar er kunnug og vinsæl gönguleið. Lítil virkni sé á jarðskjálftamælum. Gosmökkurinn sé ekki enn komin í 3 kílómetra hæð en þá sjáist hann á radar. Hún segir að á meðan gosmökkur sjáist ekki á radar sé ekki mikil hætta á eldingum. Gosið sé frekar súrt og því þykkt hraun og seigfljótandi sem komi upp. Gosið sé ekki undir íshellunni.