Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Lagast vonandi á næstu dögum“

01.03.2016 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
„Forráðamenn sláturhússins hafa nú boðið okkur velkomin til eftirlits. Við getum vonandi sent menn austur fljótlega og þá lagast þetta vonandi“, segir Einar Örn Thorlacius lögfræðingur Matvælastofnunar. Stofnunin stöðvaði í dag markaðssetningu afurða frá Sláturhúsinu á Seglbúðum í Skaftárhreppi, eftir að eftirlitsmönnum stofnunarinnar var ekki hleypt þar inn.

Einar Örn segir að forráðamenn sláturhússins hafi haft samband við Matvælastofnun, borið við misskilningi og boðið fulltrúa stofnunarinnar velkomna. Héraðsdýralæknir hafi mætt á staðinn við annan mann til eftirlits og að fylgja eftir athugasemdum sem gerðar höfðu verið áður. Þeim hafi verið tjáð að engin starfsemi væri í gangi og að þeir ættu að boða komu sína. „Matvælaeftirlit á að vera fyrirvaralaust og það á að vera öllum ljóst. Við fylgjum því mjög fast eftir og viðurlögin eru skýr“.

Dreifing afurða frá sláturhúsinu verður ekki leyfð fyrr en eftirlit hefur farið fram. Einar Örn leggur áherslu á að ekki hafi verið um að ræða innköllun á vörum. Sláturhúsið á Seglbúðum er kynnt sem fyrsta handverkssláturhúsið í landinu. Það hefur leyfi til að slátra 100 fjár á dag. Afurðirnar eru að mestu seldar í héraði, til gistihúsa og veitingastaða.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV