Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lág fæðingartíðni gæti rýrt lífskjör verulega

03.04.2019 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frjósemi íslenskra kvenna hefur aldrei verið minni en í fyrra. Hagfræðiprófessor segir að slík þróun geti gerbreytt samfélaginu og dregið lífskjör niður. Helsti mælikvarðinn á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Miðað er við að frjósemi þurfi að vera 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma. Árið 2018 var frjósemin 1,7 barn á ævi hverrar konu. ​​​​​​

Meðalaldur kvenna sem eru að eignast sitt fyrsta barn hefur sömuleiðis hækkað verulega síðustu áratugi og er nú 28,2 ár. Algengasti barneignaaldurinn er á milli 25 og 29 ára. 

„Fæðingartíðnin hefur sem sagt lækkað núna. Hún hefur undanfarin þrjú ár verið í 1,7 börnum á hverja konu sem er nú bara svipað hlutfall og annars staðar á Norðurlöndunum en þetta er talsvert mikil lækkun frá því sem verið hefur á Íslandi því hér hefur fæðingartíðnin verið mun hærri heldur hún er í nágrannalöndunum og Evrópu yfirhöfuð,“ segir Ólöf Garðarsdóttir, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og sérfræðingur í fólksfjöldafræðum.

Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði, segir að skakkur aldurspíramíti muni rýra lífskjör þegar fer að líða á öldina og að sjóðsöfnun lífeyriskerfisins breyti litlu um það. „Ef það er ekki auðvelt að stofna heimili og eignast börn til dæmis vegna það er erfitt að komast í húsnæði eða vegna þess að mæðraorlofið er stutt eða ekki spennandi eða það er erfitt að komast með börn á dagheimili. Allt slíkt dregur líklega úr fæðingartíðni og þetta eru þá atriði sem væri mjög æskilegt að reyna að laga,“ segir Gylfi.

„Til langs tíma getur það gerbreytt samfélaginu og efnahagsleg áhrif eru ekki jákvæð. Ef þetta heldur áfram er fólksfjöldapýramídinn skakkur og hlutfallslega fáir á vinnumarkaði. Það mun þá draga niður lífskjör og búa tli efnahagsleg, félagsleg og heilbrigðisleg vandamál þegar það fer að líða á öldina,“ bætir hann við.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV