Lærðu fordóma heima hjá sér

31.10.2011 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Kennarar gegna lykilhlutverki í aðlögun erlendra barna segir pólskur menntaskólanemi. Hann varð fyrst var við kynþáttafordóma ellefu ára þegar hinir nemendurnir höfðu lært fordómana heima hjá sér.

Piotr Adam er 17 ára  og stundar nám við Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Hann flutti ásamt móður sinni frá Póllandi til Akraness níu ára gamall og þótti þetta allt saman mjög spennandi.  Nýtt land, nýtt fólk og nýtt tungumál. Það hafi verið frábært.

Honum leið vel í fyrstu en svo breyttist allt í kringum sjötta bekk. Þá hafi farið að bera á fordómum, en hann viti ekki af hverju. Krakkarnir, sem þá hafi verið 12 til 13 ára, hafi ekki haft neina reynslu af útlendingum, þannig að þau hafi ekki sjálf getað haft skoðun á því hvort útlendingar væru góðir eða ekki. Þeir hafi fengið það allt að heiman. Þeir hafi ekki meint það sem þeir sögðu, heldur haft það eftir foreldrum sínum.

Skólastjórinn hafi síðar gripið inn í og hlutirnir lagast. En það kemur honum ekki á óvart að nýlegar rannsóknir sýni að börn af erlendum uppruna séu þrisvar sinnum líklegri til að verða fyrir einelti. Eina vopnið sem Íslendingurinn hafi eru að kalla helvítis útlendingur og útlendingar geti ekki varið sig. Það særi mjög mikið, meira en að vera kallaður hálfviti eða eitthvað þvíumlíkt.

Piotr telur sig hafa gengið vel að aðlagast íslensku samfélagi og þakkar það besta kennara sínum. Kennarinn hafi einungis talað við hann á íslensku, Það hafi skipt mestu máli.