Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Læra um ljóstillífun en ekki geðsjúkdóma

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Kristín Hulda Gísladóttir, sálfræðinemi og formaður geðfræðslufélagsins Hugrúnar, segir að þörfin fyrir að fræða ungt fólk um geðheilbrigði sé mjög brýn. Krakkar í grunn- og framhaldsskólum læri um ljóstillífun og fari í kistinfræði en svo fá þau kvíðaköst og þá viti enginn hvað á að gera. Stóra vandamálið sé landsbyggðin því þar eru úrræðin sem standa krökkunum til boða mun færri. Taka ætti geðfræðslu inn í námskrár.

Rætt var við Kristínu Huldu í Mannlega þættinum á Rás eitt í morgun.

Hver könnunin á fætur annarri hefur sýnt að geðheilsa ungmenna er ekki góð og kvíði og depurð hafi aukist verulega. Sjá má samantekt um þessi mál í Talnabrunni landlæknisembættisins frá því í ágúst í fyrra. Niðurstöður kannanna embættisins gefa til kynna að ungmennum líði almennt verr en áður. Sem dæmi má nefna að árið 2007 mátu 16,8 % fólks á aldrinum 18-24 ára andlega heilsu sína annað hvort sæmilega eða lélega. Árið 2016 hafði þeim fjölgað verulega því þá mátu 36,2% fólks á sama aldri andlega heilsu sína annað hvort sæmilega eða lélega. Það ár 2016 ákváðu nokkrir háskólanemar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði að taka málið í sínar hendur. Þau stofnuðu geðfræðslufélagið Hugrúnu sem hefur það markmið að fræða ungt fólk um geðheilsu og geðsjúkdóma. Kristín Hulda tók nýlega við formennsku í félaginu en hún hefur tekið þátt í starfinu frá upphafi. 

„Félagið er stofnað af því við töldum vera þörf fyrir þessa fræðsu fyrir yngra fólk en okkur, menntaskóla og grunnskólanema. Þetta er svolítið að fyrirmynd Ástráðar kynfræðslu læknisfræðinema sem hefur verið til í mörg ár og gengið vel. Við erum með svipað konsept, erum með fyrirlestur um geðheilsu og geðraskanir sem við förum með í framhaldsskóla og flytjum fyrir krakka mest á fyrsta ári í menntaskóla og svo erum við aðeins að færa okkur niður í grunnskóla.“

Kristín segir að mikill skortur sé á fræðslu af þessu tagi og hafi verið. Fólk á hennar aldri hefðu viljað fá að vita meira um geðheilbrigði.  

„Það er enginn markvisst að gera neitt í því [….] þú veist við lærum um ljóstillífun og förum í kristinfræði og eitthvað en svo fá allir kvíðaköst og enginn veit hvað hann á að gera.“ 

Kristín Hulda segir segir að hún hafi lært lífsleikni bæði í grunnskóla og menntaskóla í mörg ár en þar hafi ekki verið minnst á kvíða eða þunglyndi. Hún telur að að fræðsla af þessu gæti átt heima í lífsleiknitímum. Fjölmargir hafi brugðist við og séu að gera eitt hvað í þessum málum en það starf er ekki nógu markvisst.

Fræðarar Hugrúnar eru nú 70 og þeir hafa heimsótt framhaldsskólana á landinu og sagt krökkum frá algengustu geðsjúkdómum og þeim úrræðum sem standa til boða. Félagið er líka með mjög virka vefsíðu.

Kristín Hulda segir að úrræði séu af skornum skammti en krakkarnir viti ekki einu sinni af því sem stendur til boða. Þau viti ekki að barnageðdeild er til og ekki að þau geti leitað til heimilislæknis með þessi vandamál, ekki af hjálparsíma Rauða krossins 1717 né netspjalli Rauða krossins. Þau viti heldur ekki að þau geta hringt í 112 ef þau eru í lífshættu sama hvaðan sú hætta kemur. 

Krakkarnir á landsbyggðinni fái minna út úr fyrirlestri Hugrúnar.

„Það er helst úti á landi þar sem úrræðaparturinn gengur verr af því það er bara oft minna í boði fyrir börn úti á landi. Þau eru oft soldið svona að græða minna á þessu heldur en krakkar á höfuðborgarsvæðnu af því mikið af úrræðunum sem við nefnum er bara ekki til fyrir þau. Það er bara alveg glatað.“ 

Hugrún er rekið með styrkjum og frjálsum framlögum og einnig eru nokkrar fjaröflunarherferðir haldnar á hverju ári. Stærsti kostnaðarliðurinn er flugið út á land. 

Kristín Hulda segir að starf Hugrúnar gangi vel og að mikilvægt sé að hafa jafningjafræðslu en það sé alls ekki nóg.  

„Það sem ég myndi vilja er að flestir algengir geðsjúkdómar væru teknir fyrir í skólanum. Ég hugsa alltaf: ég veit allt um ljóstillífun og var í kristinfræði í mörg ár sem er blessunarlega búið að taka úr flestum námskrám núna. Ég hefði viljað læra um þetta í staðin fyrir kristinfræði og þá hefði ég viljað fá bara mikla fræðslu um allar raskanir. Við erum að tala í korter um kvíða - ótrúlega algengt vandamál sem ég gæti talað um í fimm tíma en við tölum um það í korter. Ég hugsa að ég myndi vilja fá geðfræðslu inn í námskrá. “