Læknir óttast morfínfaraldur á Íslandi

03.04.2018 - 09:01
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir á Landspítalanum, segir að æ fleiri ánetjist morfínskyldum verkjalyfjum á Íslandi. Þróunin sé í sömu átt og Bandaríkjunum, þar sem talað hefur verið um morfínfaraldur.

„Við höfum verið að þróast í sömu átt og Bandaríkin núna síðustu árin í því að við sjáum aukningu í sölu á sterkum morfínskyldum lyfjum og ávísanir lækna hafa verið að aukast. Og svo sjáum við í bráðalækningum aukinn fjölda af einstaklingum sem koma eftir ofskammt sem þarf að bjarga, eins og um helgina,“ segir Hjalti Már.

Tíu manns komu á bráðamóttöku Landspítalans um páskana vegna ofneyslu fíkniefna og áfengis; þar af voru fimm tilvik mjög alvarleg þar sem fólk var komið í öndunar- og hjartastopp.

Fíknifaraldurinn jafn alvarlegur og umferðarslysin

„Og því miður eru enn sorglegri sögur sem við heyrum frá SÁÁ um að dánartíðni ungra fíkla hafi aukist marktækt undanfarin ár. Þannig að það eru sennilega tugir ungra einstaklinga sem eru búnir að látast úr þessu og alvarleiki fíknifaraldursins er að minnsta kosti jafn mikill og umferðarslysin.“

Hjalti var gestur Morgunútvarpsins á Rás tvö. Hann segir of algengt að verkir séu meðhöndlaðir með sterkum verkjalyfjum, en í mörgum tilvikum myndi íbúfen virka jafn vel. „Ég leyfi mér að fullyrða að það sé alltaf gert í góðri trú en eftir því sem fólk tekur lyfin lengur þá bæði hætta þau að virka á verkinn. Fólk verður háð þeim og ef þú ert búinn að vera lengi að taka morfínskyld lyf þá hreinlega færðu verki bara út af því; þau valda verkjum.“