Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Læknaskortur - vandi heilsugæslunnar

04.07.2012 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti þeirra sem leita til bráðamóttökunnar vegna umgangspesta gera það vegna þess að þeir komast ekki að í heilsugæslunni. Vandi hennar verður ekki leystur bara með skipulagsbreytingum. Þetta segir Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslunnar.

Komum á bráðamóttökur sjúkrahúsanna hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og mikið frá því í fyrra. Hluti þeirra sem koma á bráðamóttökuna er með umgangspestir eða aðra kvilla og ætti því frekar að leita á heilsugæslustöðvar. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í hádegisfréttum í dag að auka þurfi aðgengi að heilsugæslunni með því að bæta skipulagið þar. Heilsugæslan hér sé með fleiri lækna per íbúa heldur en almennt á Norðurlöndunum.

 Lúðvík segir að grunnvandi heilsugæslunnar sé læknaskorturinn, „Stór hluti þeirra sem leita á bráðamótttökur gerir það vegna þess að þeir komast ekki að í heilsugæslunni.“

Á þessu hafi læknar heilsugæslunnar vakið athygli árum saman. Hann segir að það þyrfti að gera ákveðna áætlun um hvernig eigi að fjölga læknum og fullmanna heilsugæsluna en það hafi ekki gengið eftir.

„Mér hefur fundist oft að menn séu að leita annarra leiða. Hugsað sem svo, hvernig getum við komist hjá því að fjölga læknum með því að tala um skipulag og samstarf og svo tískuorðið task-shifting, um að færa verkefni frá einum hópi til annars. Allt þetta er partur af myndinni og þarf að taka á, en grunnvandinn í heilsugæslunni er skortur á læknum,“ segir Lúðvík.