Læknaráð ósátt við nýtt starfsmatskerfi

03.04.2019 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Læknaráð Landspítala segir að starfsmatskerfi sem Landspítalinn notar til að flokka störf vegna jafnlaunavottunar endurspegli ekki eðli og inntak læknisstarfsins. Kerfið sem spítalinn notast við er frá bresku heilbrigðisþjónustunni NHS og hefur verið breytt nokkuð til notkunar hérlendis. Læknaráð segir að breska kerfið taki ekki til lækna. Því sé mikilvægt að meta að verðleikum bæði lengd læknanáms og endanlega ábyrgð lækna á greiningu og meðferð sjúklinga.

Í ályktun frá stjórn læknaráðsins er því fagnað að Landspítalinn vinni að því að starfsmenn sem gegna sömu eða jafnverðmætum störfum fái greidd sambærileg laun.

Stjórnin gerir þó athugasemdir við framkvæmdina. Bæði hvaða starfsmatskerfi var lagt til grundvallar og hvernig það var valið. Læknaráðið gagnrýnir að hópi starfsmanna spítalans hafi verið falið að velja og þróa starfsmatskerfi og segir að sú aðferðafræði geti aldrei talist óbjöguð. „Jafnframt skorar læknaráð á Landspítala að taka til gagngerrar endurskoðunar þá leið sem valin var til jafnlaunavottunar. Læknaráð telur að farsælast sé að leita til óháðra ytri sérfræðinga til þess að útfæra leið að jafnlaunavottun eins og flest önnur stórfyrirtæki landsins hafa gert.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV