Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Læknar semja

07.01.2015 - 02:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Samninganefndir ríkisins og Læknafélags Íslands undirrituðu á fjórða tímanum í nótt nýjan kjarasamning Læknafélagsins og ríkisins. Samninganefndirnar komust að samkomulagi á þriðja tímanum, eftir fund sem hafði þá staðið í rúmar fjórtán klukkustundir, frá því klukkan eitt eftir hádegi í gær.

Frétt uppfærð kl. 04:08.

Nýr kjarasamningur verður nú borinn undir félaga í Læknafélaginu til staðfestingar. Verkfallsaðgerðum lækna, sem hófust 27. október, hefur verið aflýst og vinna hefst með venjubundnum hætti í dag að því er fram kemur í tilkynningu á vef Læknafélagsins

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, segir að nýi samningurinn feli í sér þónokkrar breytingar á vinnufyrirkomulagi lækna, en einnig launahækkanir. Samningurinn sé fyrsta skrefið í því að leiðrétta laun lækna.

Að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um samninginn fyrr en eftir atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Aðspurður hvort að hann telji að læknar samþykki samninginn, segir Þorbjörn að samningamenn félagsins myndi ekki skrifa undir samning, sem þeir teldu að yrði ekki samþykktur. 

Ekki fást nánari upplýsingar um samninginn að svo stöddu.

Skurðlæknafélagið og samninganefnd ríkisins hittast svo á fundi klukkan tíu í fyrramálið. 

Boðið var upp á nýbakaðar vöfflur hjá Ríkissáttasemjara á fjórða tímanum í nótt eftir að samningar náðust. Mynd:Einar Þorsteinsson/RÚV.


Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélagsins og Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, ásamt Magnúsi Péturssyni ríkissáttasemjara að undirritun lokinni. Mynd:Einar Þorsteinsson/RÚV.