Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Læknar leggjast gegn áfengisfrumvarpi

24.03.2015 - 07:17
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Læknafélag Íslands leggst gegn frumvarpi Vilhjálms Árnasonar, um að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis gefin frjáls. Félagið segir að engin skynsamleg rök mæli með því að breyta núverandi fyrirkomulagi áfengissölu - það er í Vínbúðunum.

Læknafélagið segir þó að eignarhald Vínbúðanna sé skoðunarefni. Þó því yrði breytt þurfi ekki jafnhliða að færa sölu áfengis í matvöruverslarnir.

Læknafélagið segist hafa farið yfir þær umsagnir sem borist hafi um frumvarpið. Það bendir á að fleiri en færri umsagnaraðilar lýsi sig andsnúna því með sambærilegum rökum og félagið . Það bendir sérstaklega á umsögn embættis Landlæknis þar sem farið sé með skýrum hætti yfir þann vanda sem sé vel þekkt afleiðing aukins frjálsræðis í sölu áfengis.

Læknafélagið bendir einnig á umsögn umboðsmanns barna og segir að varnarlausustu fórnarlömb ofneyslu áfengis séu börnin. Það sé því þversagnakennt, - í ljósi þess að Alþingi hafi nýlega lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna - að ætla í framhaldinu að samþykkja frumvarp sem fyrirfram sé vitað að muni hafa neikvæð áhrif á líf og uppvöxt barna og unmenna sem búi við ofneyslu áfengis í nánasta umhverfi sínu, segir í umsögn Læknafélagsins.

Nærri fimmtíu umsagnir hafa borist um frumvarp Vilhjálms - meðal annars frá verslunarkeðjunni Costco, Reykjavíkurborg og Viðskiptaráði Íslands. 
Frumvarpið var afgreitt úr nefnd í byrjun þessa mánaðar við litla hrifningu andstæðinga þess.
Samkvæmt könnun Maskínu í desember vilja aðeins 22,7 prósent Íslendinga leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum - rúm 58 prósent voru andvíg eða stóð á sama.