Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Læknar gætu greint fólk í gegnum netið

02.07.2015 - 12:34
Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Læknar munu greina sjúklinga í auknum mæli í gegnum nettengd tæki, ef fjarheilbrigðisþjónusta verður efld hér á landi. Alþingi ákvað í gær að láta kanna hvernig efla megi fjarheilbrigðisþjónustu.

 

Í þingsályktun er heilbrigðisráðherra falið að skipa starfshóp sem móti stefnu og aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Í ályktuninni segir að þannig mætti bjóða öllum landsmönnum fjölbreytta, skilvirka og örugga heilbrigðisþjónustu hvar sem þeir búa.

Fjarþjónusta getur spannað allt frá símaráðgjöf til fjarstýrðra skurðaðgerða. Þá geta læknar metið ástand sjúklinga með nettengdum tækjum og sjallsímar fylgst stöðugt með líðan fólks eftir aðgerðir. Í starfshópnum verður meðal annars fulltrúi frá Heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri. Þar hefur verið erfitt að manna stöðu héraðslæknis að fullu og undanfarin misseri hefur þar verið starfrækt fjarheilbrigðisþjónusta með þar til gerðu tæki. Það er búið eyrna-, háls- og augnskoðunartæki, hjartalínuriti, öndunarmæli, rafrænni hlustunarpípu, lífsmarkamæli sem skráir púls, blóðþrýsting, hita og súrefnismettun, auk myndavélar sem gerir mögulegt að sinna sjúklingum í rauntíma.

Pétur Heimsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir að fjarþjónusta sé ekki ný af nálinni og í öðrum löndum hafi hún komið að góðum notum þar sem ekki næst að manna stöður. Til að mynda sé enginn röntgensérfræðingur á Austurlandi og því séu alla myndir skoðaðar af sérfræðingi á sjúkrahúsinu á Akureyri. Mjög jákvætt sé að kanna eigi aukna möguleika á fjarheilbrigðisþjónustu.

Starfshópurinn sem heilbrigðisráðherra var falið að stofna á að ljúka störfum fyrir 1. mars á næsta ári.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV